Erlent

Trump sektaður um 355 milljónir dala í New York

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Niðurstaðan er töluvert fjárhagslegt högg fyrir Trump.
Niðurstaðan er töluvert fjárhagslegt högg fyrir Trump. Getty/Steven Hirsch

Dómari í New York hefur dæmt Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og forsetaframbjóðanda, til að greiða 355 milljónir dala í sekt vegna fjársvika.

Niðurstaðan er sögð munu þurrka út nánast allt lausafé Trump og þá má hann ekki reka fyrirtæki í New York næstu þrjú árin. Dómarinn ákvað einnig að eldri synir Trump, Donald Jr. og Eric, skyldu greiða 4 milljónir dala í sekt og mættu ekki fara fyrir fyrirtæki næstu tvö árin.

Ákvörðunin hefur það í för með sér að hvorki Trump né synir hans geta farið fyrir Trump-veldinu í New York næstu árin.

Trump mun áfrýja sektinni, sem er sögð geta farið upp í 400 milljónir dala með vöxtum. Hann þarf hins vegar að reiða féð fram eða leggja fram tryggingu fyrir upphæðinni innan 30 daga.

Þá er þess vænst að hann muni krefjast þess að ákvörðuninni um að banna honum og sonum hans að vera í forsvari fyrir fyrirtæki í New York verði frestað þar til áfrýjunardómstóll hefur fjallað um málið.

Situr áfram uppi með eftirlitsaðila

New York Times segir Trump hins vegar mögulega lítið geta gert til að fá fá einum þætti dómsins hnekkt; það er framlengingu skipunartíma sérstaks sjálfstæðs eftirlitsaðila innan Trump-samsteypunnar um þrjú ár. 

Hlutverk eftirlitsaðilans, Barböru Jones, er að vera „augu og eyru“ dómstóla innan samsteypunnar og hafa eftirlit og gera viðvart um öll grunsamleg viðskipti. Trump-fjölskyldan er sögð ævareið vegna eftirlitsins.

Trump var fundinn sekur um að hafa gert meira úr virði viðskiptaveldis síns en innistæða var fyrir, í þeim tilgangi að tryggja sér hagstæðari kjör hjá bönkum og öðrum lánveitendum. 

Saksóknarinn í málinu sagði að jafnvel þótt lánveitendurnir hefðu grætt á viðskiptunum við Trump hefðu þeir engu að síður verið sviknir og sektin endurspeglar meðal annars þann hagnað sem þeir fóru á mis við.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×