Erlent

Hafi ætlað að hitta ein­hvern í garðinum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Jóns Þrastar Jónssonar hefur verið saknað í fimm ár.
Jóns Þrastar Jónssonar hefur verið saknað í fimm ár.

Lögregluyfirvöld í Dublin telja nú líklegt að Jón Þröstur Jónsson hafi ætlað sér að hitta einhvern í almenningsgarðinum Santry Demense. Hann hafi látist í kjölfar þess fundar. Þetta herma heimildir írska miðilsins Dublin Live.

Eins og greint hefur verið frá hefur írska lögreglan efnt til leitaraðgerða í garðinum eftir að tvö bréf bárust sitthvorum aðila með nafnlausum upplýsingum um málið. Garðurinn er í um þriggja og hálfs kílómetra fjarlægð frá staðnum þar sem Jón Þröstur sást síðast, í febrúar 2019.

Írski miðillinn hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum innan lögreglunnar að lögreglan óttist nú hið versta. Jón kunni að hafa verið myrtur.

Er haft eftir lögreglunni að Jón hafi á fundinum ætlað sér að nálgast frekara fjármagn til pókerspilunar. Lögregla telji að mögulega hafi komið til átaka á fundinum og líki hans komið fyrir í almenningsgarðinum í kjölfarið.

Haft er eftir lögreglunni að nægilegt magn upplýsinga hafi verið til staðar í bréfunum svo tilefni þyki til þess að leita að jarðneskum leifum Jóns í garðinum. Bréfin tvö fóru annars vegar til lögreglu og hins vegar til prests í borginni.

Fram kemur í frétt írska miðilsins að leit hafi farið fram í dag í garðinum. Henni verði haldið áfram á morgun. Meðal annars verður kafað í stöðuvatni í garðinum auk þess sem leitarhundar verða notaðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×