Innlent

Óskar eftir því að dómur Hæsta­réttar verði ræddur í nefnd

Lovísa Arnardóttir skrifar
Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, segir áríðandi að dómur Hæstaréttur sé skoðaður betur og þau tilmæli sem þar er að finna til löggjafans. 
Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, segir áríðandi að dómur Hæstaréttur sé skoðaður betur og þau tilmæli sem þar er að finna til löggjafans.  Vísir/Vilhelm

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, hefur óskað þess að allsherjar- og menntamálanefnd taki til umræðu nýjan dóm Hæstaréttar í máli ákæruvaldsins gegn Brynjari Joensen Creed og hvort að breyta þurfi ákvæðum hegningarlaga til að vernda börn betur. 

Í dómi Hæstaréttar komst dómstóllinn að því að kynferðisbrot þar sem gerandi og þolandi eru fjarri hvoru öðru og brotin fara fram í gegnum samfélagsmiðla eða samskiptaforrit teljast ekki til nauðgunar. Hæstiréttur var að þessu leyti ósammála Landsrétti. Þrátt fyrir það staðfesti Hæstiréttur refsingu Landsréttar þar sem hann var dæmdur til sjö ára fangelsivistar.

Dómur Hæstaréttar hefur vakið þónokkra athygli og þá helst kannski þar sem segir að sú þróun sem hafi orðið með „aukinni netnotkun barna og breyttu samskiptamynstri þeirra í milli og við aðra með notkun samskiptaforrita og samfélagsmiðla gerir þau berskjölduð gagnvart kynferðislegri háttsemi sem unnt er að drýgja á þessum vettvangi.“

Þá segir einnig í dómi að þrátt fyrir þessa þróun og ótvíræða skyldu löggjafans til að vernda börn gegn hvers konar misnotkun, þar á meðal kynferðislegri, sé ekki hægt að ráða það í orðalag ákvæða almennra hegningarlaga, sem fjalla um slík brot, að orðalag þeirra endurspegli þróunina og nái þannig þeirrar háttsemi að fjarstaddur gerandi fái annan mann, í tilviki brotaþola, barn, til þess að fróa sjálfu sér eða eiga kynferðismök við aðra og fái síðar myndskeið sent af því.

Eyjólfur segir þetta að mörgu leyti áhugaverðan dóm og vill að nefndin ræði þetta frekar. Hann segir að hann hafi fengið jákvæðar undirtektir hjá nefndarmönnum fyrir umræðunni.

„Ég lagði til að hann yrði eftir næstu viku og að að það komi sérfræðingar ráðuneytisins á fundinn,“ segir Eyjólfur.

Hann segir það á ábyrgð dómsmálaráðherra, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, að vísa því til refsiréttarnefndar ef skoða eigi þau ákvæði hegningarlaga við eigi við og það verði að koma í ljós hvort hún muni óska eftir því.

„Þetta er gríðarlega mikilvægt réttarsvið og snýr að börnum og það er mikilvægt að bregðast við þessu. Ég tel að það þurfi mögulega að skoða fleiri ákvæði,“ segir Eyjólfur.


Tengdar fréttir

Meintur barnaníðingur grunaður um miklu fleiri brot

Rúmlega fimmtugur karlmaður sem bíður dóms í umfangsmiklu kynferðisbrotamáli gegn börnum, er grunaður um fleiri brot en þau sem hann hefur verið ákærður fyrir. Dómur fellur í málinu í næstu viku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×