Erlent

Beitir landtökumenn refsiaðgerðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur verið undir nokkrum þrýstingi vestan hafs vegna þess hve þétt hann hefur staðið við bakið á Ísraelum í mannskæðum átökum þeirra gegn Hamas.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur verið undir nokkrum þrýstingi vestan hafs vegna þess hve þétt hann hefur staðið við bakið á Ísraelum í mannskæðum átökum þeirra gegn Hamas. AP/Andrew Harnik

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, gaf í dag út tilskipun og beitti fjóra ísraelska landtökumenn á Vesturbakkanum sem hafa ráðist á Palestínumenn refsiaðgerðum. Hægt er að breyta tilskipuninni gegn fleiri landtökumönnum í framtíðinni en refsiaðgerðirnar fela meðal annars í sér að fólkið getur ekki átt í viðskiptum við bandarísk fyrirtæki og getur ekki ferðast til Bandaríkjanna.

Í tilskipuninni frá Hvíta húsinu segir að landtökumennirnir fjórir hafi beitt Palestínumenn ofbeldi og hótunum og þar að auki reynt að ræna eða eyðileggja eygur þeirra. Yfirvöld á Vesturbakkanum og mannréttindasamtök segja landtökumenn hafa banað Palestínumönnum, kveikt í bílum og gert árásir á nokkur fámenn samfélög Bedúína og rekið þá frá heimaslóðum sínum.

Í tilskipuninni er haft eftir Biden að landtaka Ísraela komi niður á utanríkisstefnu Bandaríkjanna og mögulegri tveggja ríkja lausn sem ætlað sé að tryggja jöfn réttindi Ísraela og Palestínumanna til öryggis og frelsis. Landtakan grafi einnig undan öryggi í Ísrael og geti leitt til umfangsmeiri átökum í Mið-Austurlöndum, sem gætu skaða hagsmuni Bandaríkjanna.

Heimildarmenn AP fréttaveitunnar í Hvíta húsinu segja að verið sé að íhuga að beita fleiri landtökumenn refsiaðgerðum. Tilskipunin á ekki að vera notuð gegn bandarískum ríkisborgurum en margir landtökumenn á Vesturbakkanum eru bæði ríkisborgarar Bandaríkjanna og Ísrael. Refsiaðgerðirnar fela í sér að hægt sé að refsa þessu fólki fyrir að eiga í viðskiptum við þá sem hafa verið beittir þeim.

Ætla ekki að refsa ráðherrum

Biden hefur verið undir töluverðum þrýstingi vegna þess hve þétt hann hefur staðið við bakið á Ísraelum í hernaði þeirra á Gasaströndinni.

AP segir hann þó hafa þrýst á Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, um að koma í veg fyrir mannfall meðal óbreyttra borgara á Gasaströndinni. Hann hefur einnig gagnrýnt landtöku á Vesturbakkanum opinberlega og líkt henni við að hella olíu á þá fjölmörgu elda sem loga víða um Mið-Austurlönd.

Heimildarmenn AP segja að ekki standi til að refsa öfgafullum ráðherrum í Ísrael sem hafa ýtt undir og jafnvel hvatt til landtöku og ofbeldis á Vesturbakkanum.


Tengdar fréttir

Biden segist búinn að ákveða sig

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segist búinn að ákveða sig hvernig brugðist verði við drónaárás í Jórdaníu, þar sem þrír bandarískir hermenn létu lífið og minnst þrjátíu særðust. Forsvarsmenn hópsins sem gerði árásina segjast hættir að gera árásir á Bandaríkjamenn í bili.

Spítalinn í Rafah yfirfullur og skortur á öllu

Íslenskur skurðhjúkrunarfræðingur sem starfaði á spítala á Gaza segir ástandið vægast sagt slæmt. Mikill skortur væri á lyfjum, áhöldum og mat og fjölmargir hafi misst jafnvel alla fjölskyldu sína.

Dulbjuggu sig og myrtu palestínska vígamenn á spítala

Ísraelskir sérsveitarliðar dulbjuggu sig sem heilbrigðisstarfsmenn og myrtu þrjá palestínska menn á spítala á Vesturbakkanum í Palestínu í morgun. Ísraelsk yfirvöld segja að um hryðjuverkamenn hafi verið að ræða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×