Innlent

Segir HS veitur reyna að koma sér undan

Jón Þór Stefánsson skrifar
Íris segir að Vestmannaeyjum hafi ekki borist bréf HS veitna fyrr en í gærkvöldi.
Íris segir að Vestmannaeyjum hafi ekki borist bréf HS veitna fyrr en í gærkvöldi. Vísir/Jóhann

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, segir HS veitur reyna að koma sér undan skyldum sínum gagnvart Eyjamönnum með því að óska eftir því að Vestmannaeyjabær leysi til sín vatnsveituna í Eyjum.

„Það er ljóst af þessu bréfi að HS veitur eru að reyna að koma sér undan skyldum sínum um að sjá Vestmannaeyingum fyrir vatni. Skyldur sem eru samkvæmt samningi og í lögum,“ segir Íris í samtali við fréttastofu.

„Að öðru leyti vil ég ekki tjá mig nánar um bréfið þar sem okkur barst það ekki fyrr en í gærkvöld. Við höfum ekki haft tækifæri til að fara yfir það með okkar lögmanni,“ bætir hún við og segist gera ráð fyrir að gefa frá sér formleg viðbrögð seinna í dag.

HS veitur sendu frá sér tilkynningu í morgun þar sem að segir fyrirtækið hafi ítrekað sagt við Vestmannaeyjabæ að bæjarfélagið beri ábyrgð á lögninni sem eigandi hennar. Mikið tjón varð á lögninni í nóvember á síðasta ári þegar akkeri skipsins Huginn VE olli skemmdum á henni.

„Mikilvægt er að ráðist sé í viðgerð á lögninni sem verður kostnaðarsöm en tekjur vatnsveitunnar munu ekki standa undir þeim kostnaði. Ekki liggur fyrir hvort bætur fáist vegna tjónsins. HS Veitur hafa ítrekað lagt áherslu á að Vestmannaeyjabær beri ábyrgð á lögninni sem eigandi og sé skylt að koma að greiðslu kostnaðar sem því fylgir að koma lögninni í nothæft ástand. Fyrir liggur óháð lögfræðileg álitsgerð sem unnin var fyrir innviðaráðuneytið þar sem komist er að sömu niðurstöðu,“ segir í tilkynningu HS veitna.

„Vestmannaeyjabær hefur ekki axlað þessa ábyrgð og vísað henni með öllu frá sér. Í ljósi afstöðu Vestmannaeyjabæjar er það mat HS Veitna, að rekstrarforsendur vatnsveitunnar í Vestmannaeyjum séu á ný brostnar og þar með samningar milli aðila um eignarhald vatnsveitunnar og leigu á neðansjávarlögn því tengdu. Hafa HS Veitur vegna fyrrgreindra vanefnda og brostinna forsendna í rekstri vatnsveitunnar og samningum milli aðila óskað eftir að Vestmannaeyjabær leysi til sín vatnsveituna í Vestmannaeyjum í samræmi við 3. mgr. 4. gr. Laga nr. 32/2004. Þess er vænst að viðræður milli aðila hefjist fljótlega.“

HS veitur hafa frá árinu 2002 rekið vatnsveituna í Vestmannaeyjum.

Í tilkynningunni segir að samningur HS Veitna við bæjarfélagið reki „HS Veitur neðansjávarlögnina í tengslum við vatnsveituna sem leigutaki og hafa fyrirfram greitt fyrir afnotin til ársins 2044, sem var áætlaður endingartími lagnarinnar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×