Erlent

Græddi milljarða en þótti hann engu að síður hafa verið svikinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Salvatore Mundi er dýrasta verk sem selst hefur á uppboði en efasemdir eru uppi um uppruna þess.
Salvatore Mundi er dýrasta verk sem selst hefur á uppboði en efasemdir eru uppi um uppruna þess. epa/Justin Lane

Milljarðamæringurinn Dmitry Rybolovlev hefur tapað máli sem hann höfðaði gegn uppboðshúsinu Sotheby's í Bandaríkjunum, sem hann sakaði um að hafa haft af sér milljónir dollara.

Ásakanirnar vörðuðu bæði Sotheby's og svissneska listaverkasalann Yves Bouvier. Bouvier segist alsaklaus í málinu en gerði engu að síður sátt við Rybolovlev. 

Málið er um margt forvitnilegt en það varðar meðal annars málverkið Salvator Mundi, sem seldist á metverði á uppboði hjá Christie's árið 2017 þegar Mohammed bin Salman, krónprins Sádi Arabíu, keypti verkið af Rybolobleb á 450,3 milljónir dollara.

Sjálfur keypti Rybolovlev verkið af Bouvier á 127,5 milljónir dollara árið 2013 en virðist hafa orðið ósáttur þegar hann komst að því að Bouvier eignaðist verkið daginn fyrir söluna fyrir aðeins 83 milljónir dollara.

Rybolovlev virðist þannig hafa verið ósáttur við verðið sem hann greiddi, þrátt fyrir að hafa hagnast gríðarlega þegar hann seldi verkið aðeins fjórum árum síðar. Lögmenn hans segja dómsmálinu hafa verið ætlað að varpa ljósi á ógegnsæi á markaðnum með listaverk.

Upphaflega höfðaði Rybolovlev málið gegn Sotheby's vegna fimmtán verka, meðal annars eftir Pablo Picasso og Auguste Rodin. Dómurinn samþykkti þó aðeins að taka fyrir sölu fjögurra þeirra en þar var um að ræða, auk Salvator Mundi, verk eftir Gustav Klimt, Rene Magritte og Amedeo Modigliani.

Krónprinsinn í Sádi Arabíu keypti Salvator Mundi upphaflega til að setja það upp í nýju Louvre-galleríi í Abu Dabí. Það hefur hins vegar ekki sést opinberlega eftir að efasemdir vöknuðu um að Leonardo da Vinci væri raunverulegur höfundur þess.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×