Innlent

Brutu jafn­réttis­lög við ráðningu konu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fríða Björk Ingvarsdóttir var rektor Listaháskóla Íslands þegar ráðningin átti sér stað. Tíu ára skipunartíma hennar lauk í fyrra. Kristín Eysteinsdóttir er núverandi rektor skólans.
Fríða Björk Ingvarsdóttir var rektor Listaháskóla Íslands þegar ráðningin átti sér stað. Tíu ára skipunartíma hennar lauk í fyrra. Kristín Eysteinsdóttir er núverandi rektor skólans. Vísir/Bjarni

Listaháskóli Íslands braut gegn jafnréttislögum við ráðningu lektors í sviðslistafræðum í sviðslistadeild skólans árið 2022. Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þessari niðurstöðu.

Karlmaður, kennari við LHÍ, var á meðal sex sem sóttu um starfið þegar það var auglýst laust til umsóknar í desember 2021. Niðurstaða hæfnisnefndar var sú að fjórir voru metnir hæfir. Karlmaðurinn, kona sem var ráðin og tveir til viðbótar.

Fjórmenningarnir fóru í viðtöl og í maí 2022 var tilkynnt að konan hefði verið ráðin. Karlmaðurinn óskaði eftir rökstuðningi fyrir niðurstöðunni og var í framhaldinu boðaður á fund í skólanum til að ræða áframhaldandi kennslu í skólanum. Var honum tjáð að Listaháskólinn veitti almennt ekki skriflegan rökstuðning fyrir ráðningu í störf við skólann.

Hlutverk rektors að ráða í starfið

Karlmaðurinn kærði niðurstöðuna í nóvember 2022 til kærunefndar jafnréttismála. Taldi hann að Listaháskólinn hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Í hönd fóru skrifleg samskipti kærunefndar við manninn annars vegar og LHÍ hins vegar. Rúmu ári síðar kvað kærunefnd upp úrskurð sinn.

Kærunefndin féllst á það með manninum að LHÍ hefði brotið gegn jafnréttislögum. Ástæðan var aðallega sú að í ljós kom að engin gögn voru til vitnis um það að Fríða Björk Ingvarsdóttir, þáverandi rektor LHÍ, hefði komið að ráðningarferlinu eins og rektor ber að gera samkvæmt reglum Listaháskólans og metið ráðninguna út frá þörfum deildarinnar.

Líkur hafi því verið á því að karlmanninum hafi verið mismunað á grundvelli kyns þar sem ekki var farið að reglum. Aðeins lágu fyrir handskrifuð matsblöð tveggja af þremur hæfnisnefndarmönnum ásamt stigagjöf með handskrifuðum athugasemdum í punktaformi. Af þeim taldi kærunefndin ekki mega ráða hvernig matið fór fram né hvernig unnið var úr viðtölunum.

Tókst ekki að sanna að reglum hefði verið fylgt

Viðtalsnefnd hafi því ekki skilað rektor skriflegri umsögn um mat sitt sem rektor hafi getað byggt mat sitt á. Ákvörðun um ráðningu í starfið hafi því legið hjá viðtalsnefndinni en ekki rektor. Það sé Listaháskólans að sanna að farið hafi verið að reglum við ráðningu í akademísk störf hjá LHÍ. Það hafi LHÍ ekki tekist við málsmeðferðina.

Var það því niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að LHÍ mismunaði umsækjendum um starf lektors í viðslistafræðum í sviðslistadeild á grundvelli kyns. Var LHÍ dæmt til að greiða manninum 250 þúsund krónur í kostnað við kæruferlið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×