Erlent

Trump sigur­viss fyrir fyrsta forvalið í Iowa

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Stuðningsmaður Donald Trump, fyrrverandi forseta, í Iowa lét nístingskulda ekki stöðva sig.
Stuðningsmaður Donald Trump, fyrrverandi forseta, í Iowa lét nístingskulda ekki stöðva sig. AP Photo/Andrew Harnik, File

Fyrstu forkosningar Repúblikana fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í ár fara fram í Iowa ríki í nótt. Samkvæmt könnunum er Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, langlíklegasti sigurvegarinn.

Í umfjöllun BBC kemur fram að kosið verði á 1.657 kjörstöðum í nótt. Kosningar hefjast klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma.

Samkvæmt könnunum styðja 48 prósent kjósenda í forvalinu Donald Trump. Nikki Haley er þar á eftir með tuttugu prósent og því næst Ron DeSantis með 16 prósent. Nístingskuldi er í ríkinu í dag, eða -23 gráður.

BBC hefur eftir Eric Trump, syni forsetans fyrrverandi, að faðir hans vonist eftir góðri mætingu kjósenda í dag. Hann óttist helst að nístingskuldinn geti þar sett strik í reikninginn en segir föður sinn sigurvissan.

Þess er getið í umfjöllun miðilsins að forvalið í Iowa þyki merkilegt fyrir þær sakir að um sé að ræða fyrstu kosningarnar í forvali Repúblikana. Það geti því sett mikinn svip á framhaldið en frambjóðendur sem hlauta dapurt gengi í Iowa eru gjarnir á að draga framboð sitt til baka að því loknu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×