Innlent

„Vin­sam­legast gefið okkur vinnu­frið“

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, sviðstjóri Almannavarna.
Víðir Reynisson, sviðstjóri Almannavarna. Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna, segir fjölda fólks hafa þyrpst að Reykjanesskaga til að berja eldgos sem hófst í morgun augum. Hann biður fólk um að vera heima og gefa viðbragðsaðilum vinnufrið til að bjarga því sem bjargað verður. 

Rætt var við Víði í aukafréttatíma Rúv rétt í þessu. Hann sagði rýmingu í nótt hafa gengið vel. Sms skilaboð voru send á alla sem voru í Grindavík auk þess sem viðbragðsaðilar keyrðu um bæinn með sírenur og athuguðu með hús þar sem bílar voru fyrir utan. 

Aðspurður um hvaða mannvirki séu helst í hættu segir Víðir að það séu séu innviðir svosem heitt og kalt vatn auk rafmagns. Fyrir stundu var greint frá því að verið væri að bjarga vinnuvélum á svæðinu við varnargarðana. 

„Við stöðvuðum vinnuna þegar þessi atburðarrás fór í gang, tryggðum að mannskapur færi í burtu, töldum ekki óhætt að vera þarna og ekki að sækja vélarnar a meðan við vissum ekki hvar sprungan myndi opnast,“ segir Víðir.

Þegar atburðarrásin fór aðeins að skýrast var talið óhætt að sækja vélarnar og nú er búið að bjarga öllum tækjum sem reynt var að bjarga. 

Aukin sprungumyndun í Grindavík

Víðir segir Grindavíkurveg í hættu en hætta er á að hraun renni að Grindavík. Þá hafa sprungur í bænum stækkað og nýjar myndast í nótt. Því sé mjög varasamt að vera við einhverkonar vinnu í bænum. 

„Nú er náttúran við stjórnvölin og við þurfum bara að sjá hvað gerist.“

Víðir biðlar til fólks að mæta ekki á staðinn.

„Því miður eins og alltaf gerist í upphafi goss þá þyrpist fólk og vill skoða þetta. En ef menn átta sig á alvöru málsins og því hvað er að gerast þarna og á alvöru málsins, þá vinsamlegast gefið okkur vinnufrið til að bjarga því sem hægt er að bjarga.“

Lögreglan á Suðurnesjum biðlar einnig til fólks að fara ekki að gosstöðvunum.

Viðbragðsaðilar séu önnum kafnir og ekki sé mannskapur til að sækja fólk sem fari gangandi af stað.

„Svæðið er hættulegt bæði hvað varðar sprungur, gas og fleira.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×