Erlent

Segir heiminn blindan þegar kemur að á­standinu á Gasa

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Meðal þeirra sem létust í árásum Ísraelshers á vesturhluta Gasa í dag voru tveir blaðamenn. Annar þeirra var Hamza Dahdouh, 27 ára sonur fréttaritarans Wael Dahdouh.
Meðal þeirra sem létust í árásum Ísraelshers á vesturhluta Gasa í dag voru tveir blaðamenn. Annar þeirra var Hamza Dahdouh, 27 ára sonur fréttaritarans Wael Dahdouh. AP/Hatem Ali

Heimurinn er blindur þegar kemur að ástandinu á Gasa segir fréttaritari, sem er búsettur þar og missti son sinn í loftárás sem gerð var á svæðið í dag. Forstjóri spítala á Gasasvæðinu kallar eftir aukinni vernd alþjóðasamfélagsins.

Meðal þeirra sem létust í árásum Ísraelshers á vesturhluta Gasa í dag voru tveir blaðamenn. Annar þeirra var Hamza Dahdouh, 27 ára sonur fréttaritarans Wael Dahdouh sem hefur verið í framlínunni þegar kemur að fréttaflutningi af átökunum.

Hann gaf sig á tal við fréttamann rétt áður en sonur hans var borinn til grafar og segir heiminn blindan þegar kemur að ástandinu á Gasasvæðinu.

„Heimurinn á að sjá með eigin augum en ekki með augum Ísraels hvað Palestínumenn ganga í gegnum. Hvað gerði Hamas þeim? Hvað gerði fjölskyldan þeim? Hvað gerðu íbúar Gasa þeim? Heimurinn sér ekki hvað er að gerast á Gasasvæðinu.“

Dahdouh hefur sem fyrr segir fjallað töluvert um átök Ísraels og Hamas og segist ætla að halda því áfram, þrátt fyrir að eiginkona hans og aðrir fjölskyldumeðlimir hafi verið drepnir í árásum Ísraelshers.

Kallar eftir aðstoð

Fjöldi fólks kom saman úti á götum í dag og minntist þeirra sem fallið hafa í árásunum. Forstjóri spítala á svæðinu kallar eftir aukinni vernd alþjóðasamfélagsins.

„Við skorum á alþjóðasamfélagið, Alþjóðaheilbrigðisstofnunina og allar alþjóðastofnanir að vernda heilbrigðisstarfsfólk okkar og sjúkrahús. Við erum á mörkum raunverulegs stórslyss og hörmunga. Ef það gerist munum við alls ekki geta veitt fólki okkar læknisþjónustu og neyðarastoð. Þá bíður þeirra ekkert annað en dauðinn á götum úti,“ sagði Iyad Abu Zaher, forstjóri Al Aqsa Martyrs sjúkrahússins.


Tengdar fréttir

Blaðamenn drepnir í loftárás Ísraels

Ísraelsk árás á borgina Rafah í suðurhluta Gasasvæðisins drap tvo palestínska blaðamenn sem voru að fjalla um stríðið samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á svæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×