Erlent

Ráða­menn í Ísrael hafa afar ó­líka sýn á fram­tíð Gasa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ljóst er að innan ríkisstjórnar Netanyahu eru afar ólíkar skoðanir á því hvað á að verða um Gasa eftir að átökum lýkur. Gallant er fyrir miðju á myndinni.
Ljóst er að innan ríkisstjórnar Netanyahu eru afar ólíkar skoðanir á því hvað á að verða um Gasa eftir að átökum lýkur. Gallant er fyrir miðju á myndinni. AP/Abir Sultan

Varnarmálaráðherra Ísrael, Yoav Gallant, hefur greint frá því hvernig stjórnvöld sjá framtíð Gasa fyrir sér að loknum átökum á svæðinu. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er væntanlegur í opinbera heimsókn til Ísrael.

Samkvæmt tillögum varnarmálaráðuneytisins, sem Gallant hefur nú lagt fyrir forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu og stríðsráðuneyti stjórnar og stjórnarandstöðu, munu aðgerðir Ísraelsmanna standa yfir þar til þeim markmiðum hefur verið náð að frelsa alla gísla og tortíma Hamas, þannig að tryggt sé að samtökin hafi hvorki getu til að stjórna á svæðinu né stunda hernað gegn Ísraelsmönnum.

Að því loknu tæki við tímabil þar sem „Hamas stjórnaði ekki Gasa og ógnaði ekki öryggi ríkisborgara Ísrael“.

Gert er ráð fyrir að ótilgreind palestínsk yfirvöld myndu taka yfir stjórn á svæðinu. Ísrael myndi áskilja sér rétt til að grípa til aðgerða á Gasa en Ísraelsmenn myndu ekki hafa fasta viðveru þar eftir að hernaðarmarkmiðum væri náð.

Á skjölunum sem Gallant lagði fram kemur fram að hann sé hugmyndasmiður þessar „framtíðarsýnar fyrir fasa 3“. Þetta er mögulega vegna þess að sumir samstarfsmanna Netanyahu á hægri vængnum eru sagðir ósammála tillögunum.

Fyrirætlanir Gallant fyrir næstu skref í átökunum virðast benda til þess að draga eigi úr aðgerðum í norðurhluta Gasa en hann segir herinn munu berjast áfram við Hamas í suðurhlutanum, svo lengi sem þess reynist þörf.

Ljóst þykir að skoðanamunur er innan ríkisstjórnar Ísrael hvað varðar framtíð Gasa en Itamar Ben-Gvir, ráðherra þjóðaröryggismála, kallaði eftir því á mánudag að Ísraelar stofnuðu byggðir á svæðinu og að lausn yrði fundin til að greiða fyrir brottflutningi Palestínumanna.

Fjármálaráðherrann Bezalel Smotrich hefur sömuleiðis kallað eftir því að Palestínumenn hverfi á brott, þannig að Ísraelsmenn geti tekið svæðið yfir og „látið eyðimörkina blómstra“.

Ummæli beggja hafa verið fordæmd af Arabaríkjunum og Bandaríkjunum.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×