Erlent

Drápið á Arouri vekur hörð við­brögð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Arouri, til vinstri, við undirritun sáttar milli Hamas og Fatah árið 2017.
Arouri, til vinstri, við undirritun sáttar milli Hamas og Fatah árið 2017. Getty/Anadolu Agency/Ahmed Gamil

Hezbollah-samtökin hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau segja dráp Ísraelsmanna á Saleh al-Arouri, einum æðsta leiðtoga Hamas-samtakanna, „alvarlega árás á Líbanon“.

Arouri og fimm aðrir féllu í sprengjuárás á skrifstofur Hamas í Musharafieh í Beirút í gær.

Í yfirlýsingunni segir enn fremur að um sé að ræða stigmögnun í stríði Ísraels og „bandalags andspyrnunnar“ og hefndum heitið. Andspyrnan sé með fingurinn á gikknum, eins og það er orðað.

Skrifstofubyggingin þar sem Arouri var á fundi þegar sprengingin átti sér stað.Getty/Marwan Tahtah

Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, sagði herinn í viðbragðsstöðu eftir drápið á Arouri. Hann virtist ekki vilja svara beint þegar hann var beðinn um að staðfesta að Ísraelsmenn bæru ábyrgð á árásinni en sagði herinn vissulega einbeittan í því að „drepa Hamas“.

Mark Regev, einn ráðgjafa Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, ítrekaði í viðtali við MSNBC að Ísraelsmenn hefðu ekki lýst árásinni á hendur sér. „En hver sem stóð að þessu, þá verður það að vera alveg ljóst; þetta var ekki árás á Líbanon. Hver svo sem gerði þetta var að framkvæma hnitmiðaða árás á forystu Hamas.“

Mótmæli brutust út á Vesturbakkanum í gær vegna drápsins á Arouri.Getty/Anadolu/Issam Rimawi

Stjórnvöld í Líbanon sendu frá sér yfirlýsingu seint í gær um að þau myndu senda kvörtun til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna árásarinnar. 

Arouri var náin samstarfsmaður Yahya Sinwar, leiðtoga Hamas á Gasa, og tengiliður samtakanna við Hezbollah og Íran. Þá átti hann stóran þátt í viðræðum milli Hamas og Ísrael um lausn gíslanna sem voru teknir í árásum Hamas 7. október síðastliðinn.

Sérfræðingar gera ráð fyrir að dauði Arouri muni flækja þær viðræður verulega.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×