Enski boltinn

Wayne Rooney rekinn

Sindri Sverrisson skrifar
Wayne Rooney er orðinn atvinnulaus.
Wayne Rooney er orðinn atvinnulaus. Getty

Wayne Rooney entist aðeins í tvo og hálfan mánuð sem knattspyrnustjóri enska félagsins Birmingham en hann hefur nú verið rekinn úr starfi.

Rooney tók við Birmingham, sem leikur í næstefstu deild Englands, í október eftir að hafa stýrt DC United í bandarísku MLS-deildinni.

Undir stjórn Manchester United-goðsagnarinnar náði Birmingham aðeins að vinna tvo af fimmtán leikjum og féll úr 6. sæti alveg niður í 20. sæti ensku B-deildarinnar.

Síðasti leikurinn undir stjórn Rooney reyndist 3-0 tap gegn Leeds í gærkvöld.

Rooney, sem er 38 ára gamall, lagði takkaskóna á hilluna í byrjun árs 2021 þegar hann var orðinn stjóri Derby í næstefstu deild Englands. Hann tók svo við DC United sumarið 2022 en ákvað að láta gott heita eftir deildakeppnina í ár, í október, eftir að liðinu mistókst að komast í úrslitakeppnina annað árið í röð. Í kjölfarið var hann ráðinn til Birmingham.

Bandaríska félagið Shelby Companies Limited eignaðist Birmingham í sumar og NFL-goðsögnin Tom Brady keypti lítinn hluta í knattspyrnufélaginu í ágúst.

Nýir eigendur ákváðu að láta John Eustace fara í október þrátt fyrir fína byrjun Birmingham á leiktíðinni, og sögðu þörf fyrir „sigurhugarfar“ og „menningu sem einkenndist af metnaði“.

Segist hafa þurft meiri tíma

Uppfært 11.25: Rooney hefur sent frá sér yfirlýsingu eftir brottreksturinn. Þar þakkar hann eigendum Birmingham fyrir tækifærið og stuðninginn þann stutta tíma sem hann var hjá félaginu. 

Rooney viðurkennir að úrslitin hafi ekki verið nógu góð en segir þrettán vikur ekki nægan tíma til að ná í gegn þeim breytingum sem hann hafi viljað sjá. Þá segir Rooney að það muni taka tíma að jafna sig á þessu áfalli, tíma sem hann vilji verja með fjölskyldu sinni, áður en hann taki við næsta starfi sem knattspyrnustjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×