Erlent

Danir senda freigátu í Rauða­hafið

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Danir segja freigátuna vera skilaboð til samstarfsþjóða og hinna árásargjörnu Húta í Jemen.
Danir segja freigátuna vera skilaboð til samstarfsþjóða og hinna árásargjörnu Húta í Jemen. Ritzau/Emil Nicolai Helms

Danir ætla að senda freigátu í Rauðahafið og Adenflóa sem öryggisráðstöfun í kjölfar fjöldamargra árása Húta á svæðinu. Þetta segja utanríkisráðherra Lars Løkke Rasmussen og varnamálaráðherra Troels Lund Poulsen.

DR greinir frá því að ráðherrarnir hafi áhyggjur af stöðu þeirri sem komin er upp í Rauðahafi þar sem árásir á skipaumferð hafa valdið miklum skaða undanfarnar vikur.

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir danska og alþjóðlega skipaumferð og fyrir þróun svæðisins að hægt sé að sigla öruggt um það,“ segir Troels Lund Poulsen á blaðamannafundi í dag.

Hann segir aðgerðina vera liður í stuðningi Danmerkur við aukið öryggi siglinga á svæðinu. Danski skipa- og olíurísinn Mærsk stöðvaði tímabundið alla umferð skipa sinna í Rauðahafi í mánuðinum eftir að skotið var á eitt skipa þeirra.

„Þetta ógnar öryggis sjómanna, þetta ógnar siglingaöryggi og það ógnar alþjóðaviðskiptum,“ segir Lars Løkke utanríkisráðherra.

„Tólf prósent alþjóðlegrar skipaumferðar fer um Rauðahafið og Súesskurðinn og ef Hútunum tekst að stífla hann mun það koma til með að kosta gríðarlega mikið,“ bætir hann við.

Þeir segja skipið tilbúið að verja sig ef það verður fyrir árásum frá Hútum og segja aðgerðina vera skilaboð til samstarfsþjóða um að Danmörk sé tilbúin að leggja sitt af mörkum til að tryggja öryggi alþjóðaviðskipta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×