Erlent

Telja á­rásar­manninn tengjast lík­fundum í skógi í síðustu viku

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Árásin átti sér stað í miðborg Prag, höfuðborgar Tékklands.
Árásin átti sér stað í miðborg Prag, höfuðborgar Tékklands. AP/Petr David Josek

Lögregla í Tékklandi telur að árásarmaðurinn sem skaut 15 til bana og særði 24 til viðbótar í skotárás á listadeild Karlsháskóla í miðborg Prag tengist drápi tveggja manneskja sem fundust látnar í síðustu viku.

Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglu og innanríkisráðherra Tékklands, Vít Rakušan, í kjölfar árásarinnar. Árásin varð síðdegis í dag, en árásarmaðurinn var 24 ára nemandi við háskólann. 

Hann hóf skothríð sína á fjórðu hæð hússins, sem er í hinum svokallaða gamla bæ borgarinnar. Lögregla fann lík árásarmannsins inni í húsinu að árásinni afstaðinni. Faðir mannsins fannst látinn fyrr í dag, í þorpi skammt fyrir utan Prag, en talið er að árásarmaðurinn hafi banað honum. 

Lögregla gengur nú út frá því að árásarmaðurinn, sem hefur verið kallaður David K í fjölmiðlum, hafi tengst andlátum tveggja einstaklinga sem fundust látnir í Klanovicky-skógi, skammt fyrir utan Prag. Hann hafði fram að þessu ekki komist í kast við lögin. Þá telur lögregla að hann hafi valið skotmörk sín af handahófi.

Þá hefur verið greint frá því að fleiri vopn en það sem árásarmaðurinn notaði til verksins hafi fundist í byggingunni þar sem árásin átti sér stað.

„Fjöldi fórnarlamba hefði getað skipt fleiri tugum, ef ekki hefði verið fyrir skjót viðbrögð lögreglunnar,“ sagði innanríkisráðherrann Rakušan á blaðamannafundinum.


Tengdar fréttir

Halda sig innandyra eftir mannskæða skotárás

Fimmtán létust og á þriðja tug særðust í skotárás í Karlsháskóla í miðborg Prag í dag. Lögregluyfirvöld í Tékklandi telja að hættan sé liðin hjá en árásarmaðurinn er látinn. Hann var tuttugu og fjögurra ára. Líkið af honum fannst í skólanum. Lögregluyfirvöld segja þá að faðir árásarmannsins hafi í dag fundist látinn skammt frá Prag.

Fimmtán látnir eftir skotárás í Prag

Fimmtán eru látnir og tugir særðir eftir skotárás við háskóla í Prag að sögn stjórnvalda í Tékklandi. Skotárásarmaðurinn er 24 ára nemandi við skólann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×