Erlent

Ó­eining innan stjórn­kerfisins varðandi vopnahlésályktun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kirby sagði í gær að enn væri unnið að texta ályktunarinnar. Hún verður mögulega tekin til atkvæðagreiðslu í dag.
Kirby sagði í gær að enn væri unnið að texta ályktunarinnar. Hún verður mögulega tekin til atkvæðagreiðslu í dag. AP/Andrew Harnik

Atkvæðagreiðslu um ályktun um vopnahlé á Gasa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna var frestað í annað sinn í gær. Enn er unnið að því að haga textanum þannig að Bandaríkjamenn geti setið hjá.

Drög ályktunarinnar voru lögð fram af Sameinuðu arabísku furstadæmunum en unnið hefur verið að því síðustu daga að haga orðalaginu þannig að Bandaríkjamenn geti setið hjá, frekar en að beita neitunarvaldi sínu.

Upphaflega stóð til að greiða atkvæði um ályktunina á mánudag og svo í gær en erlendir miðlar segja ósætti innan stjórnkerfisins í Bandaríkjunum orsök þess að málið hefur ekki enn verið tekið fyrir.

Orðalag ályktunarinnar var upphaflega þannig að kallað var eftir því að látið yrði af átökum á Gasa en því var síðar breytt á þann veg að kallað væri eftir mannúðarhléi og skrefum til að binda enda á átökin.

Sendinefnd Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar var sögð hafa verið sátt við síðarnefnda orðalagið en babb komið í bátinn þegar málið var borið undir Hvíta húsið, sem er sagt vera afdráttarlausara í stuðningi sínum við Ísrael en utanríkisráðuneytið.

Innan Hvíta hússins eru menn sagðir hafa verið mótfallnir því að talað væri um endalok átaka yfir höfuð og efasemda um ákvæði þar sem fjallað er um eftirlit Sameinuðu þjóðanna með neyðaraðstoð til handa íbúum Gasa, án þess að minnst væri á rétt Ísrael til að hafa eftirlit með gögnum sem færu um ríkið.

Þá var því mótmælt að árásir Hamas á Ísrael 7. október síðastliðinn væru ekki fordæmdar.

John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, sagði í gær að vinna við textann stæði enn  yfir en það væri afar mikilvægt að ekkert væri dregið undan hvað varðaði voðaverk Hamas né rétt Ísrael til að grípa til varna.

Þá væri mikilvægt að heimsbyggðin áttaði sig á því hvað væri í húfi.

Æðsti pólitíski leiðtogi Hamas, Ismail Haniyeh, sem hefur aðsetur í Katar, mun ferðast til Egyptalands í dag til að eiga viðræður um annað samkomulag um vopnahlé gegn lausn gísla. Isaac Herzog, forseti Ísrael, hefur staðfest að Ísraelsmenn séu áhugasamir um nýtt samkomulag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×