Fótbolti

Um­boðs­mennirnir græddu á tá og fingri á árinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Real Madrid keypti Jude Bellingham frá Dortmund á árinu og hann gerði einn af stærstu samningum ársins.
Real Madrid keypti Jude Bellingham frá Dortmund á árinu og hann gerði einn af stærstu samningum ársins. Getty/Denis Doyle

Fótboltafélög á Englandi og í Sádí-Arabíu sáu til þess að umboðsmenn fótboltamanna hafa aldrei áður haft eins mikið upp úr krafsinu og á þessu ári.

Alls borguðu félög heimsins umboðsmönnum leikmanna 888 milljónir Bandaríkjadala í umboðslaun eða meira en 122,2 milljarða íslenskra króna.

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, sagði frá þessu og þar kom fram að sumir umboðsmenn hafa grætt meira en tíu milljónir dollara á einum samningi skjólstæðinga sinna.

Það þýðir að umboðsmaður hefur fengið meira en milljarð inn á reikninginn sinn eftir að hafa klárað samning fyrir leikmann.

FIFA hefur reynt að ná tökum á þessum ofurgreiðslum til umboðsmanna en tapaði máli í London í síðasta mánuði sem snerist um að hámarka greiðslur til umboðsmanna.

Í samantekt FIFA kemur fram að ensku félögin eyddu mest í umboðslaun.

Umboðslaun hækkuðu um 42 prósent frá árinu 2022 en gamla metið frá 2019 voru 654 milljónir dollara. Þetta er því þriðjungshækkun á fyrra meti.

Í samantektinni var ekki sundurliðun á greiðslum til einstakra umboðsmanna en þar kom þó fram að í 224 tilfellum hafi umboðsmenn fengið meira en eina milljón dollara í sinni hlut eða 138 milljónir króna.

Í flestum samningum fengu umboðsmenn þó á bilinu tíu þúsund til hundrað þúsund Bandaríkjadali fyrir hvern samning en það eru greiðslur á bilinu 1,4 milljónir til 13,8 milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×