Erlent

Tusk og ráð­herrar hans sóru em­bættis­eið

Atli Ísleifsson skrifar
Andrzej Duda Póllandsforseti og Donald Tusk, nýr forsætisráðherra Póllands.
Andrzej Duda Póllandsforseti og Donald Tusk, nýr forsætisráðherra Póllands. EPA

Donald Tusk gekk á fund Andrzej Duda Póllandsforseta í morgun og sór embættiseið sem nýr forsætisráðherra Póllands. Ráðherrar í nýrri ríkisstjórn Tusk sóru sömuleiðis embættiseið í forsetahöllinni í Varsjá.

Valdaskiptin marka endalok átta ára samfellda stjórnartíð þjóðernisflokksins Laga og réttar, en Tusk og bandamenn hans hafa sagst meðal annars ætla að bæta samskiptin við Evrópusambandið. Samskipti Póllands og ESB hafa verið mjög stirð síðustu ár, meðal annars vegna afskipta pólskra stjórnvalda af dómstólum.

Meirihluti þingmanna á pólska þinginu greiddi í gær atkvæði með því að Donald Tusk yrði næsti forsætisráðherra landsins. Áður hafði Duda veitt Mateusz Morawiecki frá Lögum og rétti, umboð til stjórnarmyndunar, en ríkisstjórn hans naut ekki hins vegar stuðnings meirihluta þings og var Tusk í kjölfarið tilnefndur. Morawiecki hafði gegnt embætti forsætisráðherra frá árinu 2017.

Ný ríkisstjórn Póllands í forsetahöllinni í Varsjá í morgun.EPA

Þingkosningar fóru fram um miðjan októbermánuð og varð strax ljóst að Boraravettvangur, flokkur Tusk, og stuðningsflokkar hans hefðu náð meirihluta. Duda ákvað þó að veita Lögum og rétti fyrst stjórnarmyndunarumboð þó að ljóst væri að flokkurinn nyti ekki stuðnings meirihluta þings. Duda hafði fyrir kosningar sagt að hann myndi fyrst veita stærsta flokknum á þingi umboðið.

Hinn 66 ára Tusk var forsætisráðherra Póllands á árunum 2007 til 2014 og forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins frá 2014 til 2019.


Tengdar fréttir

Donald Tusk kjörinn for­sætis­ráð­herra

Donald Tusk hefur verið kjörinn forsætisráðherra Póllands eftir Mateusz Morawiecky fékk ekki meirihluta í pólska þinginu í dag til að leiða næstu ríkisstjórn landsins. Flokkur Tusk hefur verið níu ár í minnihluta pólska þingsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×