Fótbolti

Sara kom Juventus á bragðið í stór­sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir kom Juventus í forystu í dag.
Sara Björk Gunnarsdóttir kom Juventus í forystu í dag. Filippo Alfero - Juventus FC/Juventus FC via Getty Images

Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði fyrsta mark Juventus er liðið vann öruggan 4-0 sigur gegn Pomigliano í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Sara kom heimakonum yfir á 30. mínútu eftir stoðsendingu frá Lindsey Thomas og reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins. Staðan var því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Hin hollenska Lineth Beerensteyn bætti svo tveimur mörkum við með stuttu millibili í síðari hálfleik. Það fyrra skoraði hún á 67. mínútu eftir stoðsendingu frá Thomas og það seinna þremur mínútum síðar eftir undirbúning Sofia Cantore.

Barbara Bonansea gerði svo endanlega út um leikinn með marki úr vítaspyrnu á þriðju mínútu uppbótartíma.

Niðurstaðan varð því öruggur 4-0 sigur Juventus sem nú situr í öðru sæti deildarinnar með 27 stig eftir tíu leiki, jafn mörg og topplið Roma sem á þó leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×