Erlent

Sagður hafa eytt fúlgum fjár í vændis­konur og lúxuslíf

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hunter Biden ásamt eiginkonu sinni Melissu Cohen í nóvember síðastliðnum.
Hunter Biden ásamt eiginkonu sinni Melissu Cohen í nóvember síðastliðnum. AP/Stephanie Scarbrough

Ákæra hefur verið gefin út á hendur Hunter Biden, syni Joe Biden Bandaríkjaforseta, fyrir skattsvik. Er Biden sakaður um að hafa svikist um að greiða 1,4 milljónir dala í skatt á árunum 2016 til 2019.

Tekjur sínar á þessum tíma er hann sagður hafa notað til að fjármagna lúxuslífstíl.

Flest brotanna sem Biden er sakaður um áttu sér stað á meðan faðir hans var varaforseti í forsetatíð Barack Obama en hans er hvergi minnst í ákærunni. Hunter Biden, sem er lögfræðingur, á yfir höfði sér allt að sautján ára fangelsi ef hann verður fundinn sekur.

Biden er sagður hafa hagnast um meira en 7 milljónir dala á umræddu tímabili, í gegnum ýmsa viðskiptasamninga og ráðgjöf til erlendra aðila. Hann er sagður hafa varið peningunum í eiturlyf, vændiskonur og kærustur, í dvöl á lúxushótelum og leiguíbúðum, dýrar bifreiðar fatnað og aðra muni.

„Í stuttu máli; í allt nema skatta,“ segir í ákærunni.

Þá er Biden sagður hafa skotið fjármunum undan skatti með því að telja persónulega útgjöld fram sem viðskiptakostnað. Greiðslur fyrir námsaðstoð til handa dóttur hans hafi verið færðar sem „ráðgjöf“ og greiðslur til vændiskvenna og dansara sem „skrifstofukostnaður og annað“.

Biden hefur gengist við því að hafa verið háður kókaíni á þessum tíma en er sagður hafa falið þá staðreynd fyrir endurskoðendum sínum, sem hefðu yfirfarið reikninga vandlegar ef þeir hefðu vitað af stöðu mála.

Ítarlega útlistun á ákærunni má finna á vef BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×