Fótbolti

Fjöl­skyldan í skýjunum með frum­raun Fann­eyjar

Aron Guðmundsson skrifar
Fanney og faðir hennar Birkir eftir 1-0 sigur Íslands á Danmörku á útivelli í Þjóðadeildinni.
Fanney og faðir hennar Birkir eftir 1-0 sigur Íslands á Danmörku á útivelli í Þjóðadeildinni. Mynd birt með leyfi Birkis

Hin 18 ára gamla Fann­ey Inga Birkis­dóttir, stimplaði sig ræki­lega inn í ís­lenska kvenna­lands­liðið í fót­bolta er hún átti stór­leik í sínum fyrsta A-lands­leik. Leik gegn Dönum á úti­velli í Þjóða­deildinni sem endaði með eins marks sigri Ís­lands. Fjöl­skylda Fann­eyjar var á vellinum í Vi­borg og segir faðir hennar, Birkir Ingi­bjarts­son, dóttur sína al­deilis hafa sýnt hvað í sér býr.

„Hún er frá­bær. Maður er enn að komast niður úr skýjunum með þetta,“ segir Birkir, faðir Fann­eyjar í sam­tali við Vísi að­spurður um til­finninguna nú degi eftir leik þar sem Fann­ey sýndi mátt sinn og megin.

Mark Karó­línu Leu skildi á milli liðanna í gær en sigur Ís­lands kramdi ólympíu­drauma danska liðsins sem hefðu með sigri tryggt sér sigur í riðlinum.

Stund sem þau vildu ekki missa af

Nokkur að­dragandi var að þessari frum­raun Fann­eyjar Ingu í marki A-lands­liðsins. Telma Ívars­dóttir, sem varði mark Ís­lands í fyrri leik liðsins í lands­liðs­glugganum gegn Wa­les, tók út leik­bann í leiknum gegn Dan­mörku og því opnaðist tæki­færi fyrir Fann­ey að láta ljós sitt skína.

„Þegar að Telma fékk gula spjaldið í leiknum á móti Wa­les grunaði manni að þetta yrði staðan. Að Fann­ey myndi fá tæki­færi í markinu. Svo um helgina fengum við að heyra það frá Fann­eyju að hún myndi spila þennan leik á móti Dönum.

Þá settum við fjöl­skyldan bara í gír og fórum í að skipu­leggja ferð okkar út til Vi­borg. Það voru keyptir flug­miðar, við leigðum okkur bíl í Dan­mörku til þess að koma okkur upp­eftir til Vi­borg og brunað af stað.“

Fanney gegndi lykilhlutverki í liði Íslandsmeistara Vals á síðasta tímabili.Vísir/Diego

Um hafi verið að ræða stund sem að­stand­endur Fann­eyjar vildu alls ekki missa af.

„Frammi­staða hennar í gær undir­strikaði það svo að maður hefði alls ekki viljað missa af þessu. Við sátum þarna fjögur saman úr fjöl­skyldunni í einu horni stúkunnar, um­kringd Dönum. Í fyrri hálf­leik sátum við þannig að við sáum Fann­eyju mjög vel. Þá var kannski minna að gera hjá henni en hún samt sem áður mjög örugg í öllum sínum að­gerðum.

Svo, kannski blessunar­lega, í seinni hálf­leik sátum við fjær henni. Það var að­eins léttari pressa að vera stað­settur þar, að sjá þetta ekki alveg í há­skerpu en maður hafði alltaf trú á því að stelpurnar myndu sigla þessu alla leið heim.“

„Sýndi aldeilis hvað í henni býr“

Sjálfur segist Birkir ekki hafa fundið fyrir miklu stressi fyrir frum­raun dóttur sinnar í A-lands­liðinu.

„Ekki beint. Maður hafði bara fulla trú á því að hún myndi standa sig vel. Þetta væri bara fyrst A-lands­leikur hennar af vonandi mörgum. Hún yrði ekki endi­lega dæmd af því hvernig leikurinn myndi enda. Ég held að hún hafi nú al­deilis sýnt hvað í henni býr.“

Eftir því sem leið á seinni hálf­leik leiksins varð pressa danska liðsins þyngri og meiri. Fann­ey var hins vegar öryggið upp­málað í öllum sínum að­gerðum og var það ansi sætt fyrir fjöl­skyldu hennar á þeim tíma­punkti að sitja á meðal danskra stuðnings­manna.

„Við vorum farin að fá nokkur augna­ráð. Fólkið í stúkunni var farið að horfa að­eins á okkur og við fögnuðum og öskruðum náttúru­lega rosa­lega þegar að Karó­lína Lea skoraði. Það var gríðar­lega sæt til­finning sem að fylgdi loka­flauti dómara leiksins.“

Á sam­fé­lags­miðlinum X birtir Birkir hjart­næma mynd af sér og Fann­eyju saman eftir leik í stúkunni, aðalmynd þessarar fréttar, og voru miklir fagnaðar­fundir eftir leik þegar að fjölskyldan fékk að hitta Fann­eyju.

„Það var náttúru­lega frá­bært að fá að­eins að knúsa hana. Svo þurfti hún að fara upp á liðs­hótel en við sem eftir vorum af fjöl­skyldunni héldum á­fram að skála að­eins og fagna þessu.“

Fanney Inga Birkisdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir faðmast eftir frábæra frammistöðu í Viborg í gærkvöld.EPA-EFE/Johnny Pedersen

Hefur alltaf stefnt hátt

Fann­ey er efni­legasti mark­vörður landsins um þessar mundir og gegndi hún lykil­hlut­verki í liði Ís­landsmeistara Vals á síðasta tíma­bili. Þrátt fyrir að vera að­eins 18 ára gömul er eins og hún hafi spilað á þessu stigi fót­boltans í mörg ár.

„Það er hennar helsti kostur í markinu, hvað hún er með mikið sjálfs­traust í þessu hlut­verki. Og í rauninni fannst mér ekkert öðru­vísi við þennan fyrsta A-lands­leik hennar saman­borið við fyrsta leik hennar með Val í Bestu deildinni sem var líka stór­leikur gegn Breiða­bliki. Leik sem vannst ein­mitt einnig 1-0.

Strax frá fyrstu mínútu þá og í gær fannst mér hún passa vel inn í þetta um­hverfi. Hún hefur verið mjög fókuseruð á þetta frá því að hún var lítil. Alltaf stefnt hátt og verið öflug. Þetta hefur verið draumurinn að til­einka sér að fullu fót­boltanum.“


Tengdar fréttir

Danir í sárum eftir „fíaskóið“ gegn Íslandi

Danir eru í öngum sínum yfir að hafa ekki nýtt tækifærið til að komast í dauðafæri á að fara á Ólympíuleikana næsta sumar. Tapið gegn Íslandi í gær, 1-0, er þeim afar dýrkeypt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×