Fótbolti

Inn­hólf Karó­línu fullt af þakk­látum Þjóð­verjum

Sindri Sverrisson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var frábær gegn Dönum í gær. Hér er hún með boltann í heimaleiknum gegn Danmörku sem Ísland tapaði naumlega.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var frábær gegn Dönum í gær. Hér er hún með boltann í heimaleiknum gegn Danmörku sem Ísland tapaði naumlega. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslensku stelpurnar í fótboltalandsliðinu unnu ekki bara frækinn sigur gegn Dönum í gærkvöld heldur gerðu þær Þjóðverjum risastóran greiða um leið. Og Þjóðverjarnir hafa verið duglegir að þakka fyrir sig.

Þýskaland náði aðeins markalausu jafntefli við Wales í lokaumferð riðlakeppni Þjóðadeildarinnar í gær. Því hefði Danmörk unnið riðilinn með sigri gegn Íslandi, og komist í umspil um sæti á sjálfum Ólympíuleikunum.

En hin 18 ára gamla Fanney Inga Birkisdóttir lokaði markinu í sínum fyrsta A-landsleik, og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði svo laglegt sigurmark í seinni hálfleik sem gerði út um vonir Danmerkur.

Karólína spilar í Þýskalandi, nú sem lánsmaður hjá Leverkusen frá stórveldinu Bayern München. Þýskum þakkarkveðjum rigndi yfir hana eftir afrek gærkvöldsins.

„Ég fékk þakkarkveðju frá stelpunum í Bayern í gær og frá liðsfélaga mínum í Leverkusen líka,“ sagði Karólína við Vísi.

Stór hópur leikmanna Bayern eru þýskar landsliðskonur og Elisa Senss, liðsfélagi Karólínu hjá Leverkusen, var í liðinu gegn Wales í gær.

En það voru ekki bara leikmenn þýska landsliðsins sem þökkuðu Karólínu og íslenska liðinu. „Instagram var fullt af Þjóðverjum að þakka manni,“ sagði Karólína létt.

Einnig má meðal annars sjá þakkir frá Þjóðverjum í kommentum við færslu KSÍ um leikinn, og á Twitter hafa sniðugir, þýskir stuðningsmenn meðal annars valið Karólínu sem mann leiksins í leik Wales og Þýskalands, og þakkað henni fyrir hennar framlag.

Á meðan að Þjóðverja bíða núna fjögurra liða úrslit Þjóðadeildarinnar, þar sem þrjú liðanna komast áfram á Ólympíuleikana í París næsta sumar, er næsta verkefni Íslands að spila í umspili í lok febrúar um að halda sæti sínu í A-deild. Leikið verður heima og að heiman, en reyndar er óljóst hvar heimaleikur Íslands verður og er vilji KSÍ að leikurinn verði erlendis vegna vallaraðstæðna á Íslandi.

Dregið verður á mánudag um það hvaða liði Ísland mætir í umspilinu en mögulegir mótherjar eru Ungverjaland, Króatía, Serbía og Bosnía.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×