Fótbolti

Ulrik Wilbek vill losna við kvenna­lands­liðið úr Viborg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ulrik Wilbek vill ekki fleiri landsleiki í Viborg.
Ulrik Wilbek vill ekki fleiri landsleiki í Viborg. vísir/getty/epa

Borgarstjórinn í Viborg vill að danska kvennalandsliðið í fótbolta finni sér nýjan heimavöll, utan borgarinnar.

Danmörk tapaði fyrir Íslandi, 0-1, í lokaleik sínum í Þjóðadeildinni í gær. Vegna tapsins misstu Danir af möguleikanum á að spila á Ólympíuleikunum á næsta ári.

Leikurinn fór fram á Energi Viborg Arena sem hefur verið heimavöllur danska kvennalandsliðsins undanfarin átta ár. Það gæti þó breyst því borgarstjórinn í Viborg vill að losna við danska liðið úr borginni.

Borgarstjórinn í Viborg er Íslendingum að góðu kunnur, handboltaþjálfarinn fyrrverandi Ulrik Wilbek. Hann var þjálfari danska karlalandsliðsins þegar það átti margar eftirminnilegar rimmur við það íslenska fyrir nokkrum árum.

Í viðtali við bold.dk sagði Wilbek að það tæki sinn toll að halda landsleiki í borginni og það gæti verið erfitt að fá áhorfendur til að mæta á svona marga leiki á svona mörgum árum.

„Þú þarft að passa að markaðurinn verði ekki mettur. Ég held líka að leikmennirnir hugsi með sér að þeir hafi verið lengi hérna. Svo það er líklega rétt fyrir okkur að framlengja ekki samninginn,“ sagði Wilbek og bætti við að danska knattspyrnusambandið skildi afstöðu borgarstjórnar Viborg.

Að sögn Wilbek ráða fjármunir ekki för enda kostar það borgina ekki mikið að halda landsleiki. Því fylgi hins vegar talsvert umstang og hann hafi svo heyrt að landsliðskonurnar hafi áhuga á að breyta til og spila annars staðar sem auðveldi ákvörðunina.


Tengdar fréttir

Danir í sárum eftir „fíaskóið“ gegn Íslandi

Danir eru í öngum sínum yfir að hafa ekki nýtt tækifærið til að komast í dauðafæri á að fara á Ólympíuleikana næsta sumar. Tapið gegn Íslandi í gær, 1-0, er þeim afar dýrkeypt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×