Erlent

Biðla til Ísraela um að gæta að mann­falli

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Palestínsk fjölskylda syrgir látinn fjölskyldumeðlim á Gasa ströndinni.
Palestínsk fjölskylda syrgir látinn fjölskyldumeðlim á Gasa ströndinni. AP Photo/Fatima Shbair

Ísraelski herinn hefur haldið áfram loftárásum sínum á Gasa í dag. Nú beinast loftárásirnar gegn suðurhluta Gasa. Bandarísk stjórnvöld biðla til þeirra ísraelskru um að virða mannréttindi.

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins kemur fram að ísraelski herinn hafi beint loftárásum sínum að suðurhluta Gasa síðan að vopnahlé við Hamas rann úr gildi á föstudag. Yfir fimmtán þúsund manns hafa látist á Gasa síðan Ísraelsmenn hófu árásir sínar.

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, tjáði sig um aðgerðir Ísraela í nótt. Hún segir að þrátt fyrir að Ísraelsmenn eigi rétt á að verja sig gegn árásum Hamas liða hafi of margir Palestínumenn látist í núverandi aðgerðum.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir talsmanni Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraela, að ísraelski herinn geri allt sitt til þess að koma í veg fyrir mannfall meðal almennra borgara. Ísraelsher láti vita af loftárásum fyrir fram.

Meðal þeirra fimmtán þúsund Palestínumanna sem látist hafa í loftárásum Ísraelsmanna eru um sex þúsund þeirra börn. Áður hafa alþjóðleg mannréttindasamtök auk stofnana lýst yfir miklum áhyggjum af stöðu mála á Gasa ströndinni. Spítalar séu þar yfirfullir, án rafmagns og nægilegs magns af vatni og mat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×