Erlent

Sprengjuregnið aldrei verið skæðara

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Syrgjendur í Khan Younis í dag.
Syrgjendur í Khan Younis í dag. Vísir/Ap

Íbúar á Suður-Gasa segja sprengjuregn Ísraelsmanna síðasta sólarhringinn það mesta frá upphafi stríðs. Hátt í 200 hafa farist á Gasa frá því vopnahlé rann út í sandinn í gær. Friðarviðræðum virðist hafa verið siglt í strand.

Sprengjur hafa fallið nær linnulaust á borgina Khan Younis á Suður-Gasa í dag, á degi tvö frá því vopnahléi lauk. Ísraelsher einbeitir sér nú að suðrinu - en þangað hafa íbúar frá Norður-Gasa einmitt flúið í hrönnum undan árásum Ísraelsmanna á fyrri stigum stríðsins. Íbúar Khan Younis segja sprengjuregnið í nótt það mesta frá upphafi stríðs; ástandið sé óbærilegt.

Öðrum svæðum er þó alls ekki hlíft. Fjölbýlishús í útjaðri Gasaborgar í norðurhlutanum var jafnað við jörðu í dag. Minnst níu voru drepin, þar af þrjú börn, í loftárás í Deir al Balah á miðju Gasa.

Ekkert virðist þokast í friðarviðræðum; samninganefnd Ísraelsmanna hefur yfirgefið Katar þar sem viðræður hafa farið fram síðustu daga. Emmanuel Macron Frakklandsforseti tilkynnti í dag að hann væri á leið til Katar til að miðla málum.

„Ég held að við séum kominn á þann stað að ísraelsk yfirvöld þurfa að skilgreina lokatakmark sitt nákvæmlega. Hvað þýðir gjöreyðing Hamas og er einhver á því að það sé mögulegt? Ef það er málið, þá mun stríðið standa yfir í tíu ár.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×