Fótbolti

Jóhannes Karl býst við að fara í við­tal í vikunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jóhannes Karl hefur stýrt ÍA og HK hér á landi.
Jóhannes Karl hefur stýrt ÍA og HK hér á landi. Vísir/HAG

Jóhannes Karl Guðjónsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, reiknar með að funda með forráðamönnum sænska efstu deildarfélagsins IFK Norrköping í vikunni.

Í gær greindi Vísir frá því að Jóhannes Karl væri meðal þeirra sem væru líklegastir til að taka við Íslendingaliði Nörrköping. Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson spila með liðinu, Andri Lucas Guðjohnsen er á láni hjá Lyngby í Danmörku og þá var Ari Freyr Skúlason að leggja skóna á hilluna.

Í viðtali við Fótbolti.net staðfestir Jóhannes Karl að hann reikni með að vera boðaður í viðtal í vikunni.

„Ég átti óformlegt spjall við forsvarsmenn félagsins í vikunni. Mér finnst líklegt að ég verði boðaður í viðtal í næstu viku,“ sagði Jóhannes Karl við Fótbolti.net.

„Fyrst og fremst mikill heiður fyrir mig að þeir höfðu samband við mig. Mér finnst það nokkuð skemmtilegt, þetta er félag sem maður þekkir vel til.“ 

Sonur Jóhannes Karls, Ísak Bergmann, spilaði með Norrköping áður en FC Kaupmannahöfn festi kaup á honum árið 2021.

„Ég hef farið þarna nokkrum sinnum, fór nokkrum sinnum þegar Ísak var þarna.“

Fótbolti.net hefur einnig greint frá því að sænski miðillinn TuttoSvenskan segi Norrköping hafa gert munnlegt samkomulag við Arnar Gunnlaugsson, þjálfara Íslands- og bikarmeistara Víkings.

Þá greinir Expressen frá því að Peter Wettergren, aðstoðarþjálfari sænska landsliðsins, sé líka á blaði. Jóhannes Karl segist lítið vera spá í því.

„Það er ekki hægt að vera spá í hvað aðrir eru að gera. Ég þarf að spá í mína hugmyndafræði og hugsa út frá því. Ég mun ekki hugsa út frá neinu öðru.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×