Erlent

Miskunn­samur samverji „tekinn af lífi“ af her­mönnum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Fjölskylda mannsins sem réði örlögum tveggja manna sem hófu skothríð á biðskýli í Jerúsalem segir hann hafa verið tekinn af lífi af ísraelskum hermönnum.
Fjölskylda mannsins sem réði örlögum tveggja manna sem hófu skothríð á biðskýli í Jerúsalem segir hann hafa verið tekinn af lífi af ísraelskum hermönnum.

Óbreyttur borgari sem réði niðurlögum tveggja hryðjuverkamanna eftir að þeir hófu skothríð á biðskýli í Jerúsalemborg var drepinn af ísraelskum hermönnum sem héldu hann sjálfan vera hryðjuverkamann.

Fjölskylda Yuval Doron Castleman segir hann hafa verið „tekinn af lífi.“ Hann var fluttur á sjúkrahús í Jerúsalem og lést þar stuttu fyrir miðnætti.

„Yuval varð var við hryðjuverkaárás við veginn þar sem hann keyrði í vinnuna og stöðvaði bílinn til að stöðva hryðjuverkamennina,“ sagði fjölskylda mannsins í viðtali við Channel 13.

Í myndbandi sem sjá má hér fyrir neðan má sjá árásina á biðskýlið. Vakin er athygli á því að myndefnið kunni að valda óhug.

„Hann sinnti áður herskyldu og var alltaf hetja, sá fyrsti til að stíga inn í og bjarga lífum. Það gerði hann einnig þarna,“ bættu þau við.

„Enginn opinber aðili hefur haft samband við okkur. Við viljum vita nákvæmlega hvað gerðist. Í myndbandinu sést að hann hjólar í hryðjuverkamennina og tekur þá út. Svo skjóta þeir hann skyndilega,“ segir Moshe, faðir Yuvals.

Í myndbandi af vettvangi sést Castleman kasta frá sér skotvopninu, leggjast á hnén, láta hendur upp í loft og æpa: „Ekki skjóta.“ Einn hermannanna á vettvangi skaut hann til bana stuttu seinna. Myndbandið kann að valda óhug.

„Þeir lásu ekki rétt í aðstæður. Ég get ekki verið dómari í þessu, hvað myndi ég hafa gert undir þessum kringumstæðum? En ég vil að þeir rannsaki þetta mál ítarlega og dragi ályktanir af því,“ segir Moshe líka.

Ísraelsk öryggisyfirvöld hafa áður verið gagnrýnd fyrir að skjóta fólk grunað um hryðjuverk til bana, hvort sem hætta stafi af þeim eður ei.

Þingmaður í Knesset, löggjafarþingi Ísraels, birti mynd af einum hermanninum á samfélagsmiðla og kallaði hann hetju. Hann tók færsluna niður stuttu seinna þegar ljóst var að sá sem hann hefði skotið væri Ísraeli. Þingmaðurinn er öfgamaður og hefur verið bendlaður við árásir á palestínska borgara.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×