Innlent

Trausti Fannar skipaður for­maður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Trausti Fannar Valsson er dósent í stjórnsýslurétti við lagadeild Háskóla Íslands, og forseti deildarinnar frá árinu 2020.
Trausti Fannar Valsson er dósent í stjórnsýslurétti við lagadeild Háskóla Íslands, og forseti deildarinnar frá árinu 2020.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað Trausta Fannar Valsson, forseta lagadeildar Háskóla Íslands, formann úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, lætur af formennsku en situr áfram í nefndinni sem varaformaður og aðalmaður ásamt Sigríði Árnadóttur, aðstoðarsaksóknara hjá héraðssaksóknara og fyrrverandi fréttamanni. 

Kjartan Bjarni Björgvinsson, settur Landsréttardómari, lætur af störfum en hann hefur setið í nefndinni frá árinu 2019. Elín Ósk Helgadóttir, Símon Sigvaldason og Sigurveig Jónsdóttir eru skipuð varamenn í nefndinni. Skipunartími nefndarinnar er frá 20. nóvember 2023 til 20. nóvember 2027.

Frá breytingunum er greint á vefsíðu Stjórnarráðsins.

„Trausti Fannar er dósent í stjórnsýslurétti við lagadeild Háskóla Íslands, og forseti deildarinnar frá árinu 2020. Trausti hefur fjölbreytta reynslu af störfum í stjórnsýslunni. Hann var formaður nefndar um eftirlit með lögreglu árin 2017–2019, formaður kærunefndar í málefnum stúdenta við Háskóla Íslands árin 2014–2017, nefndarmaður í úrskurðarnefnd um upplýsingamál árin 2007–2010 og formaður nefndarinnar árin 2010–2013. Áður en Trausti hóf störf við Háskóla Íslands starfaði hann sem lögfræðingur hjá umboðsmanni Alþingis og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Trausti hefur um árabil sinnt rannsóknum og kennslu á sviði stjórnsýsluréttar, þar á meðal á sviði upplýsingaréttar og upplýsingalaga,“ segir um nýjan formann úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál er starfrækt á grundvelli V. kafla upplýsingalaga til að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang að gögnum hjá stjórnvöldum og öðrum aðilum sem heyra undir gildissvið laganna. Nefndin er sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem skipað er til hliðar við hið almenna stjórnkerfi ríkis og sveitarfélaga. Forsætisráðuneytið veitir nefndinni ritara- og skrifstofuþjónustu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×