Innlent

Stranda­glópar ýmist ösku­reiðir eða sultuslakir

Vésteinn Örn Pétursson og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Domenico var öskureiður en Jeet var pollróleg.
Domenico var öskureiður en Jeet var pollróleg. Vísir

Veður hefur leikið íbúa á suðvesturhorninu og víðar grátt í dag. Ferðamenn hafa ekki heldur farið varhluta af veðrinu, og einhverjir þeirra orðið fyrir því að flugferðum þeirra var frestað eða þær felldar niður. Þeir eru misánægðir með gang mála.

Bergildur Erla fréttamaður okkar ræddi meðal annars við ferðamanninn Domenico. Hann var einn þeirra sem átti flug sem var aflýst vegna veðurs. Hann kvaðst ekki viss um hvar hópurinn sem hann er með hér á landi komi til með að dvelja.

„Ég veit það ekki. Við erum ellefu. Við vitum ekkert. Við erum reið. Ekki reið heldur öskureið,“ sagði Domenico. 

Hin unga Sophia Watson átti að fljúga frá landinu í dag.

„Fluginu var aflýst til morguns. Við verðum á hóteli og höfum reynt að fá upplýsingar. Við höfum oft hringt til Reykjavíkur. Mamma hefur verið fjóra tíma í símanum. Frændi minn líka,“ segir hún. 

Móðir hennar, Tanya, segir móður sína eiga sjötugsafmæli í dag.

„Svona átti afmælið ekki að vera. Við erum samt ekki á móti því að vera á Íslandi,“ segir Tanya. Hún ferðaðist til landsins í níu manna hópi, þar sem eru sex fullorðnir og þrjú börn. 

Nýtur þess að fylgjast með fólkinu

Hin 91 árs Jeet Lahal var einnig á meðal þeirra ferðamanna sem máttu bíða á Keflavíkurflugvelli vegna veðurs. Hún kvaðst þó ekkert þreytt.

„Ég nýt þess að horfa á fólk koma og fara,“ sagði hún glöð í bragði. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×