Erlent

Hafna rýmingu suður­hluta Gasa og segja hungur­sneyð yfir­vofandi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Leitað að líkamsleifum í húsarústum í Bureij-flóttamannabúðunum á Gasa.
Leitað að líkamsleifum í húsarústum í Bureij-flóttamannabúðunum á Gasa. AP/Adel Hana

Yfirmenn átján stofnana Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra hjálparstofnana hafa mótmælt fyrirmælum Ísraelshers til íbúa Gasa um að rýma suðurhluta svæðisins og safnast saman á „öruggt svæði“ í Mawasi.

Mawasi er um það bil fjórtán ferkílómetrar að stærð og stofnanir segja meðal annars að það sé of áhættusamt að safna svo miklum fjölda saman á svo litlu svæði. Stofnanirnar ítreka áköll sín eftir vopnahléi og neyðaraðstoð á svæðinu.

Ísraelsher dreifði einblöðungum yfir suðurhluta Gasa í gær þar sem fólk var hvatt til að halda til Mawasi, í „öruggt skjól“. Flestir íbúar Gasa halda nú til í suðurhlutanum, eftir að einblöðungum var dreift í norðurhlutanum og fólk hvatt til að halda suður vegna herðnaðaraðgerða norðanmegin.

Ef aukinn þungi færist í árásir Ísraelsmanna á suðurhlutann er óvíst hvað á að verða um fólk þar sem Egyptar hafa neitað að opna landamærin fyrir Palestínumenn á flótta. Utanríkisráðherra Egyptalands sagði raunar í gær að leggja þyrfti áherslu á að opna heilbrigðismiðstöðvar innan Gasa til að aðstoða sjúka og særða.

Á sama tíma hefur Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna varað við því að hungursneyð standi fyrir dyrum á Gasa, þar sem nærri allir íbúar á svæðinu séu án mataraðstoðar. Vatn og matur sé af skornum skammti og íbúar standi frammi fyrir því að svelta.

Ísraelsher réðist inn í Jenin-flóttamannabúðirnar á Vesturbakkanum í nótt og þá eru þrír Palestínumenn sagðir hafa látist í loftárásum á búðirnar í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×