Erlent

Segja ekki hafa komið til „samstuðs“ milli her­manna og sjúk­linga eða starfs­fólks

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þessi mynd var tekin skammt frá al Shifa á dögunum, eftir loftárás Ísraelsmanna. Engar nýjar myndir af sjúkrahússvæðinu er að finna á fréttaveitum.
Þessi mynd var tekin skammt frá al Shifa á dögunum, eftir loftárás Ísraelsmanna. Engar nýjar myndir af sjúkrahússvæðinu er að finna á fréttaveitum. epa/Mohammed Saber

Talið er að um 1.200 sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn séu nú á al Shifa-sjúkrahúsinu á Gasa en Ísraelsher fór inn á sjúkrahússvæðið í morgun í „hnitmiðaðri aðgerð“ sem virðist beinast gegn meintum höfuðstöðvum Hamas undir sjúkrahúsinu.

Vitni hafa greint frá því að hafa séð skriðdreka á svæðinu og hermenn inni á sjúkrahúsinu.

Samkvæmt Times of Israel féllu fimm liðsmenn Hamas í skotbardögunum fyrir utan sjúkrahúsið en miðillinn hefur eftir talsmanni Ísraelshers að ekki hafi komið til „samstuðs“ milli hermannanna og sjúklinga eða heilbrigðisstarfsfólks.

Þá segir herinn hafa sent heilbrigðisteymi og túlka inn á sjúkrahúsið. Ísraelsmenn segja enga gísla að finna á sjúkrahúsinu.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segist ekki lengur ná sambandi við tengiliði sína á sjúkrahúsinu.

Martin Griffiths, yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, segir Hamas ekki mega nota staði á borð við sjúkrahús til að skýla sér en það væri forgangsmál að vernda íbúa Gasa fyrir þeim hörmungum sem nú steðjuðu að þeim.

Benny Gantz, sem nú situr í samvinnuríkisstjórn Ísrael, segir Ísraela munu elta uppi og drepa foringja Hamas hvar sem þeir finnast og hefur hótað óvinum ríkisins í Líbanon sömu meðferð. „Það sem við erum að gera með góðum árangri í suðrinu mun virka jafnvel betur í norðrinu,“ sagði hann.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, ávarpaði þingið í morgun og kallaði Ísrael „hryðjuverkaríki“ sem væri að brjóta gegn alþjóðalögum og fremja stríðsglæpi. Hamas-samtökin væru  hins vegar ekki hryðjuverkasamtök, heldur flokkur kosinn af Palestínumönnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×