Erlent

Varpa enn sprengjum á byltingarverði í Sýr­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AP/Jung Yeon-je

Bandaríkjamenn gerðu í gærkvöldi aftur loftárásir gegn Írönum og vígahópum sem þeir styðja í Sýrlandi. Sprengjum var varpað á vopnageymslu byltingarvarða Írans og á þjálfunarmiðstöð í austurhluta landsins en þetta er í þriðja sinn á rúmum tveimur vikum sem Bandaríkjamenn gera slíkar árásir.

Það er eftir nærri því fimmtíu árásir vígahópa sem tengjast Íran á bandaríska hermenn í Írak og í Sýrlandi, frá því stríðið milli Ísrael og Hamas hófst á Gasaströndinni, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir 56 hermenn hafa særst lítillega í þessum árásum. Um 2.500 bandarískir hermenn eru í Írak og um níu hundruð í Sýrlandi.

Sjá einnig: Á­fram á­rásir á Banda­ríkja­menn í Írak og Sýr­landi

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra, sagði í yfirlýsingu í gærkvöldi að ekkert hefði meiri forgang í ríkisstjórn Joe Biden, forseta, en að vernda líf bandarískara hermanna. Hann sagði árásirnar til marks um að Bandaríkjamenn myndu verja sig og hagsmuni sína.

Sjá einnig: Vörpuðu sprengjum á byltingarverði í Sýr­landi

Austin sagði að skotmörkin sem sprengjum hefði verið varpað á í gærkvöldi hafi verið notuð af byltingarvörðum Íran og vígahópum.

Byltingarverðir Íran, sem er stærsta og valdamesta deild hers landsins, heyrir eingöngu undir Ayatollah Ali Khamenei, æðstaklerk Íran, sem stjórnar landinu. Þeir hafa lengi verið í Íran og flytja þessar hersveitir meðal annars vopn til vígahópa sem yfirvöld í Íran styðja víðsvegar um Mið-Austurlönd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×