Erlent

Spænskur stjórn­mála­maður af hægri vængnum skotinn í and­litið

Atli Ísleifsson skrifar
Alejo Vidal-Quadras sat á Evrópuþinginu frá 1999 til 2014.
Alejo Vidal-Quadras sat á Evrópuþinginu frá 1999 til 2014. AP

Spænski stjórnmálamaðurinn Alejo Vidal-Quadras, sem átti um árabil sæti á Evrópuþinginu og er einn af upphafsmönnum hægriöfgaflokksins Vox, var skotinn í andlitið á götu úti í höfuðborginni Madríd fyrr í dag.

Spænskir fjölmiðlar segja að hinn 78 ára Vidal-Quadras hafi verið skotinn í andlitið í miðju Salamanca-hverfinu í Madríd. Hann hafi svo verið fluttur alvarlega særður á La Princesa-sjúkrahúsið. Árásin átti sér stað um klukkan 13:30 að staðartíma.

El Mundo segir að Vidal-Quadras hafi verið einn á ferð þegar maður hafi gengið upp að honum og skotið hann af um tveggja metra færi. Árásarmaðurinn hafi svo flúið af vettvangi á bifhjóli.

Árásin átti sér stað í Salamanca-hverfinu í spænsku höfuðborginni.AP

Vidal-Quadras er frá Barcelona, menntaði sig sem eðlisfræðingur og starfaði sem slíkur áður en hann hóf stjórnmálaferil sinn. 

Hann átti sæti á katalónska þinginu áður en hann var kjörinn á Evrópuþingið árið 1999 og átti þar sæti fyrir Lýðflokkinn (s. Partido Popular) til ársins 2014. Þá tilkynnti hann að hann hefði gengið til liðs við hægriöfgaflokkinn Vox.

Hann var frambjóðandi Vox í kosningunum til Evrópuþingsins árið 2014 en tókst ekki að ná sæti í kosningum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×