Erlent

Ísraelskur fáni í Ráð­húsi Kaup­manna­hafnar um­deildur

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Borgarstjórnarfulltrúar í Kaupmannahöfn eru margir óánægðir með ísraelskan fána í skrifstofuglugga eins fulltrúa.
Borgarstjórnarfulltrúar í Kaupmannahöfn eru margir óánægðir með ísraelskan fána í skrifstofuglugga eins fulltrúa. EPA/ Liselotte Sabroe

Fólki sem átti leið hjá ráðhúsi Kaupmannahafnar í morgun sagðist hafa brugðið við að sjá ísraelskan fána hanga í glugga ráðhússins sem vísar út á H.C Andersensbreiðgötuna, eina mest förnu götu Kaupmannahafnar.

DR greinir frá því að það hafi verið forseti atvinnu- og aðlögunarnefndar borgarstjórnar, hann Jens-Kristian Lütken í Venstre-flokknum sem hengdi fánann upp í gær. Hann hefur sætt mikilli gagnrýni frá borgarstjórnarfélaga sínum Kashif Ahmad úr röðum Radikal Venstre-manna.

Einhliða ögrun sem gagnist engum

Kashif segir gjörninginn vera ónauðsynlegan og tillitslausan. „Hægt er að túlka þetta sem einhliða og ögrun og ég trúi því ekki að það gagnist neinum,“ segir Kashif.

„Þetta ýtir undir skautun á tíma þar sem hættan á skautun mikil. Þarna er verið að nota Ráðhúsið, sem er opinber bygging, til að senda einhliða pólitísk skilaboð sem ég tel hvorki æskilega né nauðsynlega,“ segir hann einnig.

Kashif undirstrikar að hann finni bæði til með palestínskum og ísraelskum fórnarlömbum átakanna en að þessi gjörningur gæti sent borgarbúum misvísandi skilaboð. Aðspurður hvort það sé ekki hægt sé að sýna ísraelskum fórnarlömbum stuðning á þennan hátt án þess að það þýði að maður hafi samúð með óbreyttum palestínskum borgurum svarar Kashif því játandi.

„Nei, því er ég algjörlega sammála. En vegna þess að þetta er opinber bygging er hættan á því að þessi skilaboð verði misskilin mjög mikil. Við verðum einnig að hafa í huga að það eru margir gyðingar búsettir hér sem hafa tjáð það að þeir styðji ekki aðgerðir ísraelsku ríkisstjórnarinnar. Með þessum gjörningi er ekki tekið tillit til þeirra sem á báðum hliðum kalla eftir friðsamlegri sambúð ríkjanna tveggja.“

Segist mega innrétta skrifstofuna eins og honum sýnist

Jens-Kristian segist ósammála félaga sínum í borgarstjórninni og segist hann mega innrétta skrifstofuna sína eins og honum sýnist.

„Ég á mjög erfitt með að sjá hvernig það á að teljast ögrun að maður finni þörf fyrir að sýna fórnarlömbunum virðingu og þeim sem enn er haldið fanga af Hamasliðum,“ segir hann við DR.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×