Erlent

Binda vonir við fyrir­byggjandi notkun krabbameinslyfsins Anastrozole

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lyfið mun standa þeim konum til boða sem hafa gengið í gegnum breytingaskeiðið og eru metnar í miðlungs eða mikilli hættu á að fá brjóstakrabbamein.
Lyfið mun standa þeim konum til boða sem hafa gengið í gegnum breytingaskeiðið og eru metnar í miðlungs eða mikilli hættu á að fá brjóstakrabbamein. Getty

Heilbrigðisyfirvöld á Englandi hafa heimilað notkun lyfsins Anastrozole í forvarnarskyni en lyfið hefur lengi verið notað sem meðferð við brjóstakrabbameini.

Vonir standa til þess að notkun lyfsins meðal kvenna sem gengið hafa í gegnum breytingaskeiðið muni koma í veg fyrir um 2.000 krabbameinstilvik á ári og spara heilbrigðisþjónustunni um það bil 15 milljónir punda í meðferðarkostnað.

Nýlegar prófanir hafa sýnt að lyfið getur helmingað fjölda þeirra kvenna sem greinist með brjóstakrabbamein eftir tíðahvörf. Þess ber að geta að aðeins er um að ræða konur sem eru í miðlungs eða mikilli áhættu á að greinast með brjóstakrabbamein.

Þessi hópur er talinn telja um 289 þúsund einstaklinga á Englandi og ef ein af hverjum fjórum fer á lyfið er talið að það muni koma í veg fyrir um það bil 2.000 krabbameinstilvik.

Allar konur sem hafa áhyggjur af því að fá brjóstakrabbamein munu nú geta haft samband við lækni, til að fá tilvísun til sérfræðings sem mun meta áhættu þeirra, meðal annars með tilliti til fjölskyldusögu.

Einkaleyfið fyrir Anastrozole er útrunnið og því geta fleiri fyrirtæki framleitt það og dreift. Þetta gerir það að verkum að lyfið er tiltölulega ódýrt. Lyfið virkar með því að blokka ensímið aromatase til að draga úr framleiðslu estrógens.

Hin fyrirbyggjandi meðferð felst í inntöku einnar töflu á dag, í fimm ár.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið á Englandi en yfir 47 þúsund greinast á ári hverju.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×