Enski boltinn

Vilja tryggingu um öryggi áður en þeir sleppa föður Diaz

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Luis Diaz bíður eftir því að föður hans verði sleppt úr haldi kólumbískra skæruliðasamtaka.
Luis Diaz bíður eftir því að föður hans verði sleppt úr haldi kólumbískra skæruliðasamtaka. Clive Rose/Getty Images

Kólumbísku skæruliðasamtökin sem rændu foreldrum knattspyrnumannsins Luis Diaz, og eru enn með föður hans í haldi, fara fram á það að þeir fái tryggingu um það þeir verði öruggir þegar þeir sleppa föður leikmannsins úr haldi.

Skæruliðahópurinn, The National Liberation Army (ELN), greinir frá því að leit hersins og lögreglunar muni seinka því að skæruliðasamtökin sleppi föður Diaz, Luis Manuel Diaz, úr haldi.

Luis Manuel Diaz var rænt af vopnuðum mönnum í lok síðasta mánaðar, ásamt konu sinni í borginni Barrancas í Kólumbíu. Móður Luis Diaz, leikmanns Liverpool, var sleppt, en faðir hans er enn í haldi mannræningja og leikmaðurinn hefur biðlað til þeirra að láta föður sinn lausan.

Skæruliðasamtökin hafa sagst ætla að láta föður leikmannsins lausan, en ELN segir að leit kólumbísku lögreglunnar og hersins tefji að það verði að veruleika.

„Herinn er enn á svæðinu, flýgur hér yfir, sendir hermenn hingað, er með útsendingar og býður fundarlaun, og allt er þetta hluti af mikilli leit,“ segir ELN.

„Þessi staða gefur ekki kost á því að hægt sé að sleppa fanganum snöggt og örugglega og þar sem Hr. Luis Manuel Diaz er ekki í hættu. Ef þessar aðgerðir halda áfram á svæðinu munum við seinnka því að sleppa honum og þar með mun áhættan aukast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×