Erlent

Hvergi öruggt á Gasa

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Palenstínskir slökkviliðsmenn berjast við elda eftir loftárásir Ísraelsmanna.
Palenstínskir slökkviliðsmenn berjast við elda eftir loftárásir Ísraelsmanna. AP Photo/Abed Khaled

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna segir hvergi öruggt að vera á Gasa. Ísraelski herinn er sagður hafa drepið fleiri en tíu þegar loftárás var gerð á skóla á Gasa í morgun. Forsætisráðherra Ísraels segir vopnahlé ekki koma til greina fyrr en gíslum í haldi Hamas verði sleppt.

Skólinn sem varð fyrir loftárásinni er á vegum Sameinuðu þjóðanna og er staðsettur í Jabalia flóttamannabúðunum á Gasa. Sjötíu eru sagðir særðir en þúsundir Palestínumanna hafa undanfarið leitað skjóls í skólanum. Yfirvöld á Gasa segja Ísraelsher bera ábyrgð á árásinni.

Fjöldi þeirra sem drepnir hafa verið í árásum Ísraelshers á Gasa fer hækkandi og er nú talið að tæplega tíu þúsund séu látnir. Þá er talið að eitt þúsund og fjögur hundruð Ísraelsmenn hafi verið drepnir í árásum Hamas.

Í gær var árás gerð nálægt sjúkrahúsi og hæfði ein þeirra sjúkrabíl sem ferjaði slasað fólk á Gasa svæðinu.

Varað er við myndefni í neðangreindri sjónvarpsfrétt.

„Mig hryllir við árásinni sem sögð er hafa verið gerð á sjúkrabílalest fyrir utan Al Shifa sjúkrahúsið á Gasa. Myndir af líkum úti á götu miðri, fyrir utan sjúkrahúsið, eru átakanlegar. Ég gleymi ekki hryðjuverkaárásunum sem Hamas frömdu í Ísrael: morð, limlestingar og mannrán, þar á meðal gegn konum og börnum. Öllum gíslum í haldi á Gasa verður að sleppa tafarlaust,“ segir António Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna.

Hann segir ástandið skelfilegt. Matur sé á Gasa sé af skornum skammti, það vanti lyf, vatn og eldsneyti. Skýli UNRWA séu orðin yfirfull og verði fyrir sprengjuárásum: „Líkhús eru troðfull, verslanir tómar og við sjáum aukningu á sjúkdómum. Heil þjóð er í áfalli. Það er hvergi öruggt að vera,“ segir Guterres.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna fundaði í dag með utanríkisráðherrum nokkurra Arabaríkja um vopnahlé á svæðinu. Þetta er þriðja heimsókn Blinken frá því að Hamas hóf árásir á Ísrael þann sjöunda október. Vopnahlé er til umræðu á fundum Blinkens en forsætisráðherra Ísraels segir að vopnahlé komi ekki til umræðu fyrr en þeim gíslum sem Hamas er með í haldi verður sleppt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×