Erlent

Steinmeier biðst af­sökunar á 300 þúsund morðum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Steinmeier er í opinberri heimsókn í Tansaníu.
Steinmeier er í opinberri heimsókn í Tansaníu. EPA

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, tjáði í dag mikla skömm og baðst afsökunar á morðum sem samlandar hans frömdu á frumbyggjum í Tanzaníu á fyrri hluta 20. aldar.

Þýskir hermenn myrtu nærri 300 þúsund frumbyggja í Maji Maji uppreisninni á árunum 1905 til 1907, sem er sögð ein sú blóðugasta sem gerð var gegn nýlenduveldi. Uppreisnin varð þegar Þjóðverjar settu lög sem þvinguðu Tansana til þess að rækta bómull til útflutnings. 

Steinmeier fór með erindi í borginni Songea í suðurhluta Tansaníu í dag, þar sem uppreisnin fór fram fyrir rúmri öld síðan. „Mig langar til þess að biðja um fyrirgefningu fyrir það sem Þjóðverjar gerðu forfeðrum ykkar hér,“ sagði hann í erindinu. 

Hann sagðist lofa að taka sögurnar af morðunum með sér til Þýskalands og sjá til þess að Þjóðverjar verði upplýstir um. 

Jürgen Zimmerer, sagnfræðiprófessor við Háskólann í Hamburg, segir Þýskaland löngum hafa verið með „nýlendutímaminnisleysi“ og að Þjóðverjar átti sig ekki á þeim hrottaskap og kynþáttahyggju sem forfeður þeirra hafa gerst sekir fyrir. 

Forsetinn er nú í opinberri heimsókn í Tansaníu. Á dögunum hitti hann afkomendur eins af leiðtogum uppreisnarinnar, sem var tekinn af lífi árið 1906. Þá fundaði hann með Samia Suhulu Hassan, forseta Tansaníu og lofaði honum samstarfi í tengslum við heimflutning menningarlegra verðmæta í eigu Tansaníu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×