Erlent

Ó­heimilt að krefjast ó­frjó­semis­að­gerða en ó­­víst um út­lit ytri kyn­­færa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hæstiréttur úrskurðaði um ófrjósemisaðgerðir en vísaði spurningu um útlit ytri kynfæra aftur á lægra dómstig.
Hæstiréttur úrskurðaði um ófrjósemisaðgerðir en vísaði spurningu um útlit ytri kynfæra aftur á lægra dómstig. Getty/Gamma-Rapho/Yoshikazu Tsuno

Hæstiréttur Japan hefur komist að þeirri niðurstöðu að það standist ekki stjórnarskrá landsins að krefjast þess að trans fólk gangist undir aðgerð til að tryggja að það geti ekki eignast börn.

Samkvæmt lögum frá 2004 getur fólk í Japan aðeins fengið að breyta kynskráningu sinni í þjóðskrá ef það gengst undir umrædda aðgerð.

Mannréttindadómstóll Evrópu, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Sameinuðu þjóðirnar eru meðal þeirra sem hafa fordæmt lagasetninguna og sagt hana brjóta gegn mannréttindum fólks.

Niðurstöðunni var fagnað af aðgerðasinnum og gagnrýnendum löggjafarinnar en minni hrifningu vakti önnur ákvörðun dómstólsins, sem vísaði þeirri spurningu til lægra dómstigs hvort gera ætti þá kröfu að viðkomandi hefði undirgengist aðgerð til að ytri kynfæri væru í takt við kynskráninguna.

Málið var höfðað af ónefndri trans konu sem sagði niðurstöðuna um ófrjósemisaðgerðirnar hafa komið skemmtilega á óvart en að ákvörðun dómsins að vísa hinu álitaefninu áfram væru vonbrigði.

Eins og stendur verða Japanir sem vilja breyta kynskráningu sinni að hafa verið greindir með kynama og uppfylla fimm önnur skilyrði: að vera orðnir 18 ára, að vera ógiftir, að eiga engin börn undir lögaldri, að vera með kynfæri sem „samrýmast“ hinu kyninu og að hafa engin eða óvirk æxlunarfæri.

Lögmenn konunnar sögðu tvö síðastnefndu skilyrðin brjóta gegn stjórnarskrárvörðum rétti hennar til lífs án fordóma en þau hefðu að auki í för með sér líkamlega þjáningu og kostnað.

Ýmsir stjórnmálamenn og kvenréttindasamtök sögðu að ef dómstóllinn kæmist að þeirri niðurstöðu að breyta ætti lögunum myndi það valda ruglingi og grafa undan réttindum kvenna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×