Forsetinn hét því á ráðstefnu Nató-ríkjanna í júlí síðastliðnum að leggja fram frumvarp um aðild Svíþjóðar þegar þingið kæmi saman í október. Tyrkir hafa hingað til sett ýmsar kröfur sem skilyrði inngöngu Svía, meðal annars framsal Kúrda og hertar aðgerðir gegn Verkamannaflokki Kúrdistan.
Nú þegar Erdogan hefur lagt frumvarpið fram er samþykkt þess aðeins formsatriði.
Welcome that President Erdo an signed Sweden s ratification protocol to NATO and submitted it to the Grand National Assembly of Türkiye. Parliamentary procedures will now commence. We are looking forward to becoming a member of NATO.
— SwedishPM (@SwedishPM) October 23, 2023
Ungverjaland á einnig eftir að samþykkja aðildarumsókn Svía en stjórnvöld þar í landi hafa ýmist haldið því fram að „tæknileg atriði“ hafi staðið því í vegi eða kvartað yfir gagnrýni Svía á stjórnarháttum í Ungverjalandi.
Guardian segir flesta sem þekkja til mála hins vegar sammála um að Ungverjar muni ekki vilja standa einir í vegi fyrir því að Svíar fái inngöngu og muni því fylgja Tyrkjum að málum nú þegar þeir hafa gefið sig.
Þá segja embættismenn innan Nató að yfirvöld í Ungverjalandi hafi ítrekað sagt að ríkið verði ekki síðast í röðinn til að leggja blessun sína yfir inngöngu Svíþjóðar. Þau voru enda fljót til að samþykkja aðild Finnlands þegar Tyrkir sögðust myndu gefa grænt ljós hvað það varðaði.
Óvíst er hvenær málið verður afgreitt á tyrkneska þinginu en það þarf að fara fyrir utanríkismálanefnd þingsins áður en það verður tekið til atkvæðagreiðslu.