Erlent

Skotinn til bana í miðborg Kaupmannahafnar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Árásarmannsins er enn leitað.
Árásarmannsins er enn leitað. Getty/Sergei Gapon

37 ára gamall karlmaður var skotinn til bana í miðborg Kaupmannahafnar upp úr klukkan 15.30 í dag. Árásarmaðurinn er ófundinn.

Fórnarlamb skotárásarinnar lést á sjúkrahúsi en fyrsta hjálp sjúkraliða á vettvangi reyndist árangurslaus. Maðurinn var skotinn mörgum skotum af stuttu færi nálægt aðaljárnbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn. 

Lögregla veit hver hinn látni er en hann er ekki talin vera „í beinum tengslum“ við glæpagengi, eins og Jesper Bangsgaard aðstoðaryfirlögregluþjónn komst að orði á blaðamannafundi fyrr í kvöld.

Tilefni árásarinnar, og hvort árásarmaðurinn og hinn látni hafi þekkst, liggur ekki fyrir samkvæmt Danska ríkisútvarpinu.

Eins og fyrr segir leitar lögregla að árásarmanninum en lýst hefur verið eftir grannvöxnum manni sem sást fara af vettvangi á rafhlaupahjóli. Hann var í appelsínugulum jakka og með bláa tösku, sambærilegri þeirri sem sendlar nota, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni í Kaupmannahöfn. Stóru svæði hefur verið lokað vegna rannsóknarinnar og þá hafa þyrlur verið nýttar til leitar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×