Innlent

Ekki enn ljóst hvort stúlkan hafi hlotið varan­legan skaða

Árni Sæberg skrifar
Atvikið átti sér staði á skólalóð Breiðagerðisskóla.
Atvikið átti sér staði á skólalóð Breiðagerðisskóla. Vísir/Vilhelm

Stúlka, sem varð fyrir árás pilta sem hentu stíflueyðisdufti í andlit hennar á mánudagskvöld, dvaldi lengi fram eftir nóttu á bráðadeild þar sem reynt var að bjarga sjón hennar og tryggja að skaði yrði ekki í öndunarfærum. Ekki er enn ljóst hvort stúlkan muni hljóta varanlegan skaða af.

Þetta segir í tölvupósti sem Þorkell Daníel Jónsson, skólastjóri Breiðagerðisskóla, sendi á foreldra barna í skólanum síðdegis.

Þar segir að atvikið, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, hafi átt sér stað á skólalóðinni og snerti meðal annars annars nemendur í skólanum.

Þar segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem skólinn hefur hafi ætandi efni verið kastað í andlit stúlku og hún hlotið brunasár af. Stúlkan hafi verið lengi fram eftir nóttu á bráðadeild þar sem reynt hafi verið að bjarga sjón hennar og tryggja að skaði yrði ekki í öndunarfærum.

„Ekki er enn ljóst hvort stúlkan muni hljóta varanlegan skaða en rétt fyrstu viðbrögð stúlkunnar, þeirra sem hún leitaði til í kjölfar atviksins og sú aðhlynning sem hún fékk á bráðadeild hafa án efa dregið úr skaðanum og vonandi komið í veg fyrir varanlegan skaða.“

Treysta því að foreldrar verði nærgætnir

Þá segir að þegar svona alvarleg atvik gerast sé eðlilegt að mikil umræða fylgi í kjölfarið og foreldrar fari jafnvel að hafa áhyggjur af öryggi eigin barna. 

„Svona mál eru mjög flókin og viðkvæm. Sértaklega þegar um börn er að ræða.“ 

Umrætt mál sé núna í höndum viðeigandi fagaðila og skólinn treysti því að hlutaðeigandi fái þá hjálp sem þeir þurfa. Skólinn treysti því einnig að foreldrar séu varkárir og nærgætnir í umræðum um málið og hafi hugfast að hér er um börn að ræða. 

„Eins og kom fram í fréttaflutningi af málinu voru gerendur að herma eftir einhverju sem þeir sáu á netinu. Í ljósi þess viljum við benda foreldrum á mikilvægi þess að vera vakandi yfir netnotkun barna sinna og veita þeim nauðsynlegt aðhald.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×