Fótbolti

Rekinn eftir að gera Spán­verja að heims­meisturum en tekur nú við Marokkó

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jorge Vilda er tekinn við Marokkó.
Jorge Vilda er tekinn við Marokkó. Marc Atkins/Getty Images

Knattspyrnuþjálfarinn Jorge Vilda hefur verið ráðinn þjálfari marokkóska kvennalandsliðsins í knattspyrnu.

Vilda var síðast þjálfari spænska kvennalandsliðsins og undir hans stjórn urðu Spánverjar heimsmeistarar í kvennaflokki í fyrsta sinn í sögunni í sumar. Eftir stormasamar vikur í kjölfar heimsmeistaratitilsins var Vilda þó rekinn rétt um mánuði eftir að bikarinn fór á loft.

Vilda var rekinn í kjölfar þess að Luis Rubiales, þáverandi forseti spænska knattspyrnusambandsins, smellti óumbeðnum rembingskossi á Jenni Hermoso, leikmann liðsins. Vilda var einn af þeim sem sást klappa fyrir ræðu Rubiales þar sem sá síðarnefndi ítrekaði það að hann ætlaði ekki að segja af sér. Meintur stuðningur hans við Rubiales virtist vera kornið sem fyllti mælinn, en í aðdraganda heimsmeistaramótsins virtust margir af leikmönnum spænska liðsins koma af stað uppreisn gegn þjálfaranum.

Hinn 42 ára gamli Vilda tekur við marokkóska liðinu af Reynald Pedros sem kom liðinu á HM í fyrsta sinn í sögunni í sumar. Marokkó komst upp úr riðlinum undir stjórn Pedros, en féll úr leik í 16-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×