Íslenski boltinn

Samúel á­nægður með á­kvörðun bæjar­stjórnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vestri mun leika í deild þeirra bestu 2024.
Vestri mun leika í deild þeirra bestu 2024. Vísir/Diego/Stöð 2 Sport

Ísafjarðarbær hefur ákveðið að flýta framkvæmdum á gervigrasvöllum bæjarins vegna sætis Vestra í Bestu deild karla í knattspyrnu sumarið 2024. Samúel Samúelsson, formaður Vestra, er himinlifandi með tíðindin.

Fyrir helgi greindi Vísir frá því að bæjarstjórn Ísafjarðar hefði ákveðið að keyra framkvæmdir á gervigrasvöllum bæjarins í gegn til að allt verði klappað og klárt þegar leikar hefjast í Bestu deild karla næsta vor. Um er að ræða tvo velli en gervigras verður á aðalvelli félagsins sem og æfingaaðstöðu þess.

Samúel, betur þekktur sem Sammi, ræddi við Fótbolti.net um ákvörðun bæjarstjórnar. „Ég er gríðarlega ánægður með þetta,“ segir Samúel. Hann segir að félagið hafi farið strax í það að ræða við bæjarstjórn eftir að ljóst var að Vestri myndi spila í efstu deild árið 2024.

„Miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið frá bænum til þessa þá verður æfingavöllurinn okkar klár í nóvember og aðalvöllurinn vonandi. Fer náttúrulega eftir veðri og vindum fyrir áramót.“

Samúel segir þó að hann og sitt fólk viti af því að veðrið geti leikið þau grátt. Hann er þó frekar brattur enda eflaust enn á bleiku skýi eftir að sætið í Bestu deildinni var tryggt.

„Fyrir vestan höfum við lent í því að það hefur ekki komið snjór fyrir áramót, ef það gæti orðið þá ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýnn,“ sagði Sammi að endingu í viðtali sínu við Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×