Erlent

Hægri­menn í Þýska­landi á siglingu eftir kosningar helgarinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Hægrimennirnir Hendrik Wüst, forsætisráðherra Norðurrín Vestfalíu og Markus Söder, leiðtogi CSU í Bæjaralandi, skáluðu um helgina.
Hægrimennirnir Hendrik Wüst, forsætisráðherra Norðurrín Vestfalíu og Markus Söder, leiðtogi CSU í Bæjaralandi, skáluðu um helgina. AP

Hægrimenn í Þýskalandi fögnuðu mikið um helgina eftir að Kristilegir demókratar, Frjálsir kjósendur og Valkostur fyrir Þýskaland unnu mikla sigra í kosningum til þings í sambandsríkjunum Hessen og Bæjaralandi, tveimur af auðugari sambandsríkjum landsins, í gær.

Talið er að afleiðingar kosninganna muni gera vart við sig um land allt, en niðurstaðan er talin vera áfall fyrir Olaf Scholz kanslara og ríkisstjórnarflokkana þrjá – Jafnaðarmannaflokkinn, Græningja og Frjálslynda demókrata.

Erlendir fjölmiðlar greina frá því að kjósendur hafi margir ákveðið að kjósa hægriflokkanna til að mótmæla stefnu ríkisstjórnar landsins í innflytjenda- og orkumálum.

Aldrei mælst stærri

Bráðabirgðaniðurstöður kosninganna í Hessen benda til að Kristilegir demókratar hafi hlotið 34,5 prósent atkvæða, sem sé umtalsvert meira en í síðustu kosningum til þings í sambandsríkinu. Þá hlaut popúlistaflokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland (AfD) um átján prósent fylgi og hefur aldrei hlotið svo mikið fylgi í kosningum til þings í sambandsríki í vesturhluta Þýskalands.

Þá hlutu bæði Græningjar og Jafnaðarmenn um fimmtán prósent fylgi og Frjálslyndir demókratar um fimm prósent fylgi og töpuðu þeir allir fylgi frá fyrri kosningum.

Frjálsir kjósendur krefjast ráðherrastóls

Kristilegir demókratar í Bæjaralandi (CSU), sem hafa stýrt sambandsríkinu nær samfellt frá 1946, hlutu um 37 prósent atkvæða og varð sem fyrr stærsti flokkurinn þó að niðurstaðan sé sú versta fyrir flokkinn frá 1958. Er fastlega gert ráð fyrir að CSU muni áfram mynda stjórn með hægriflokknum Frjálsum kjósendum, sem bætti við sig fylgi, hlaut um fimmtán prósent atkvæða og hafa þegar krafist fleiri ráðherrastóla.

Í Bæjaralandi misstu Græningjar fylgi, hlutu um fimmtán prósent atkvæða, á meðan Jafnaðarmenn biðu afhroð og hlutu einungis um átta prósent fylgi.

Þó að Valkostur fyrir Þýskaland hafi bætt við sig fylgi er ljóst að hann mun ekki í komast í valdastöðu í sambandsþingunum þar sem enginn flokkur segist vilja vinna með þeim. Fylgisaukningin er þó talin bera skýran vott um stemmninguna meðal þýsku þjóðarinnar og er líkleg til að auka þrýsting á leiðtoga hófsamari hægriflokka að herða stefnuna, meðal annars í innflytjendamálum.

Næstu þingkosningar fara fram í Þýskalandi fara fram árið 2025.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×