Íslenski boltinn

Vin­skapur nafnanna settur til hliðar í dag: „Á­byggi­­lega furðu­­legt fyrir hann“

Aron Guðmundsson skrifar
Vinirnir Ragnar Sigurðsson (þjálfari Fram) og Ragnar Bragi Sveinsson (fyrirliði Fylkis) mætast í mikilvægum leik í lokaumferð Bestu deildarinnar í dag
Vinirnir Ragnar Sigurðsson (þjálfari Fram) og Ragnar Bragi Sveinsson (fyrirliði Fylkis) mætast í mikilvægum leik í lokaumferð Bestu deildarinnar í dag Vísir/Samsett mynd

Ragnar Bragi Sveins­son, fyrir­liði Fylkis, segir þægi­legt fyrir sitt lið að vita að það hafi ör­lögin í sínum höndum fyrir mikil­vægan leik gegn Fram í einum af fall­bar­áttuslag dagsins í loka­um­ferð Bestu deildarinnar í fót­bolta. Ragnar Sigurðs­son, þjálfari Fram, er upp­alinn Fylki­s­maður og vinur Ragnars Braga sem telur furðu­lega stöðu blasa við vini sínum.

„Leikurinn leggst bara mjög vel í mig. Þetta verður hörku leikur,“ segir Ragnar Bragi í sam­tali við Vísi. „Það er flott veður og mér skilst að það verði fullt af fólki á vellinum í dag. Þetta verður bara stemning.“

Það ræðst í dag hvaða lið fellur með Kefla­vík úr Bestu deildinni. Fyrir leiki dagsins í loka­um­ferðinni eru fjögur lið: Fram, HK, Fylkir og ÍBV, í fall­hættu en viður­eign Fylkis og Fram á Wurth-vellinum í Ár­bænum, er eini leikur dagsins þar sem bæði lið eiga á hættu á að falla.

„Þetta er auð­vitað bara, eins og flestir vita, bara mjög spennandi,“ segir Ragnar Bragi, að­spurður um hvernig sé að fara inn í svona leik þar sem að allt er undir. „Það er alltaf gaman að taka þátt í leikjum sem skipta miklu máli. Þessi leikur skiptir miklu máli fyrir fé­lagið í heild sinni, okkur sem lið og hverfið sem við erum full­trúar fyrir. Verk­efnið er því mjög spennandi og við erum með þetta í okkar höndum. Það er alltaf þægi­legra. Við þurfum ekki að treysta á ein­hverja aðra en okkur sjálfa. Við erum því al­gjör­lega fókuseraðir á að klára okkar verk­efni og þá fer þetta allt vel.“

Sigur í dag tryggir veru Fylkis í deildinni. Jafn­tefli nægir Fram til þess að tryggja sætið sitt.

„Ég á von á þannig leik að bæði lið munu reyna að vinna hann. Fram er í hörku góðri stöðu. Liðið er ekki alveg sloppið við fall en er nánast öruggt. Ég á ekki von á öðru en að þeir, undir stjórn Ragga, muni gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að vinna leikinn. Við munum gera það sama. Við ætlum að fara inn í þennan leik, setja kraft í hann og ná stjórninni sem fyrst. Vinna þennan leik.“

Einn at­hyglis­verðasti punkturinn við leik liðanna í dag er sú stað­reynd að Ragnar Sigurðs­son, fyrrum at­vinnu- og lands­liðs­maður í fót­bolta og upp­alinn Fylki­s­maður, er þjálfari Fram og einnig góður vinur nafna síns Ragnars Braga.

„Við Raggi erum góðir vinir og höfum þekkst lengi. Nú er hann náttúru­lega bara að þjálfa Fram liðið sitt. Auð­vitað er þetta á­byggi­lega skrýtin staða fyrir hann en sem þjálfari Fram vill hann náttúru­lega bara að sitt lið vinni þennan leik.

Ef hann fengi hins vegar að velja þá myndi hann held ég velja að eitt­hvað annað lið en Fylkir og Fram myndi falla. Það verður á­byggi­lega furðu­legt fyrir hann að fara inn í þennan leik en ég veit að hans fókus er á að hans lið klári sitt.

En akkúrat sú stað­reynd að þið séuð vinir en í sitt hvoru liðinu í dag. Var skrúfað niður í öllum sam­skiptum ykkar á milli í að­draganda leiksins?

„Nei, nei alls ekkert svo­leiðis. Við ræddum að­eins leikinn okkar á milli fyrr í vikunni en ekkert dýpra en það að þeir ætluðu sér að vinna og að sama skapi er það mark­miðið hjá okkur í Fylki. Ekkert meira en það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×