Erlent

Leggja drög að brott­flutningi tug­þúsunda vegna mögu­legs goss

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Skjálftinn á mánudag olli nokrum skemmdum, meðal annars í Pozzuoli.
Skjálftinn á mánudag olli nokrum skemmdum, meðal annars í Pozzuoli. epa/Ciro Fusco

Stjórnvöld á Ítalíu undirbúa nú mögulegan brottflutning tugþúsund manns sem búa nærri Campi Flegrei ofureldfjallinu skammt frá Napólí. Málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í gær.

Campi Flegrei-svæðið liggur vestur af Napólí og þar er að finna fjölda bæja og þorpa, þeirra á meðal Pozzuoli, Agnano og Bacoli. Íbúafjöldi þéttbýliskjarnanna er áætlaður um það bil 500.000.

Alls eru 24 gígar í hinum gríðarstóra sigkatli, sem er mun stærri en Vesúvíus en gos í síðarnefnda lagði rómversku borgina Pompei í rúst árið 79.

Yfir 1.100 skjálftar hafa mælst á svæðinu á síðasta mánuði, þar á meðal 4 stiga skjálfti á mánudag og 4,2 stiga skjálfti í síðustu viku. Um var að ræða öflugasta skjálftann á svæðinu í fjóra áratugi.

Sérfræðingar segja að líklega megi rekja skjálftanna til landriss á svæðinu. Fæstir eru á því að gos sé yfirvofandi en áhyggjur eru uppi um þol bygginga á svæðinu og munu aðgerðir yfirvalda meðal annars miða að því að taka húsnæði út og meta útfrá aukinni skjálftavirkni.

Ráðherra almannavarnamála sagði fyrr í vikunni að aðeins yrði ráðist í fjöldarýmingar af ítrustu nauðsyn.

Staðarmiðlar hafa greint frá því að sjúkrahús á svæðinu hyggist hefja æfingar á rýmingu.

Skjálftavirkni á Campi Flagrei-svæðinu var síðast töluverð á 9. áratug síðustu aldar og þá voru um 40.000 manns fluttir frá Pozzuli. Síðasta stóra gosið varð árið 1538 en talið er mögulegt að stórt gos fyrir um 39.000 árum hafi mögulega valdið útdauða Neanderthal-mannsins.

Gjóska frá því gosi hefur fundist á Grænlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×