Innlent

Manninum sem fannst látinn í austur­borginni virðist hafa verið ráðinn bani

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Við erum alveg á fullu í því að rannsaka þetta mál,“ segir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu
„Við erum alveg á fullu í því að rannsaka þetta mál,“ segir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu Vísir/Egill

Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir allt benda til þess að manni, sem lést eftir að hafa fundist meðvitundarlaus um þarsíðustu helgi, hafi verið ráðinn bani.

Kona sem var handtekinn á vettvangi málsins, er nú grunuð um að hafa orðið honum að bana.

Maðurinn, sem var á sextugsaldri, fannst meðvitundalaus í íbúð fjölbýlishúss í austurborginni laugardaginn 23. september. Lögreglan fékk tilkynningu um manninn og reyndi endurlífgun á honum, en hann var úrskurðaður látinn við komu á sjúkrahús.

„Í upphafi var bara mjög óljóst með hvaða hætti maðurinn hefði látist, en nú eru vísbendingar um að honum hafi verið ráðinn bani,“ segir Ævar í samtali við Vísi og útskýrir að krufning hafi leitt þessar vísbendingar í ljós.

DV greindi fyrst frá því að konan væri nú grunuð um að hafa orðið manninum að bana, en þegar hún var fyrst handtekin var það sagt á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Núverandi gæsluvarðhaldsúrskurður rennur út á morgun. Aðspurður um hvort krafist verði frekara gæsluvarðhalds á hendur konunni segir Ævar við Vísi að það muni koma í ljós á morgun.

„Það er mikið sem þarf að vinna í þessu máli, mörg gögn sem þarf að afla og margar skýrslur sem þarf að taka. Við erum alveg á fullu í því að rannsaka þetta mál,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×