Íslenski boltinn

Samúel klökkur eftir af­rek Vestra: „Þetta er bara geggjað fólk“

Aron Guðmundsson skrifar
Samúel Samúelsson hefur unnið frábært starf í kringum fótboltann fyrir Vestan
Samúel Samúelsson hefur unnið frábært starf í kringum fótboltann fyrir Vestan Vísir/Skjáskot

Samúel Samúels­son, prímu­s­mótorinn á bak við knatt­spyrnu­deild Vestra, var hrærður í við­tali eftir að Vestri hafði tryggt sér sæti í efstu deild í fót­bolta í fyrsta skipti í sögunni með 1-0 sigri á Aftur­eldingu í úr­slita­leik í um­spili Lengju­deildarinnar. Hann þakkar öllu því fólki sem stendur að baki liðinu fyrir sitt fram­lag.

„Ég á engin við­brögð, sorrí,“ sagði klökkur Samúel í við­tali eftir að Vestri hafði tryggt sig upp í Bestu deildina. „Þetta er bara geggjað. Það er það eina sem ég get sagt. Þetta lið. Þetta fólk. Þetta er ó­trú­legt.“

Samúel hefur staðið í for­ystu knatt­spyrnu­deildar Vestra, þar áður BÍ/Bolungar­víkur í yfir sex­tán ár og er metnaður hans í því starfi vel þekktur.

Lengi vel hefur stefnan hjá Vestra verið sett á að ná inn liði í efstu deild hér á landi og nú hefur það tekist. Fjörutíu árum eftir að þáverandi lið Ísafjarðar, ÍBÍ, var í efstu deild. 

Klippa: Samúel klökkur eftir afrek Vesta: Fullt af fólki sem á þetta svo mikið skilið

Hvað gerði út­slagið í ár?

„Davíð, strákarnir, þjálfara­t­eymið og þetta fólk. Það gerði út­slagið. Þetta er bara geggjað fólk, það er bara þannig. Ég er kannski í frontinum á þessu en hvað heldurðu að það sé mikið af fólki sem vinnur baki brotnu fyrir þetta fé­lag. Út í gegn dag og nótt. Ég er bara í sviðs­ljósinu en það er fullt af fólki sem á þetta svo mikið skilið.“

Það var fyrir ný­af­staðið tíma­bil sem Vestri gekk frá ráðningu á Davíð Smára Lamu­de í þjálfara­stöðuna. Davíð Smári hafði unnið virki­lega gott starf með Kór­drengjum þar áður.

Hvað gerir Davíð sem gerir út­slagið í því að þið komist upp?

„Þetta er metnaðar­fullur, grjót­harður þjálfari. Við í Vestra höfðum oft spilað á móti honum og alltaf var það erfitt. Þetta var eitt­hvað sem við þurftum.“

Hvað ætlið þið að gera í efstu deild?

„Við erum ekki komin upp í Bestu deildina bara til þess að vera í Bestu deildinni. Við ætlum okkur að vera með.“

Viðtalið við Samúel í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×