Innlent

Rak taí­lenskan þing­mann út af veitinga­stað í Kópa­vogi

Árni Sæberg skrifar
Ari Alexander vildi ekki hafa þingmanninn inni á veitingastaðnum sem hann vinnur á.
Ari Alexander vildi ekki hafa þingmanninn inni á veitingastaðnum sem hann vinnur á. Instagram/Tokyo Sushi

Ari Alexander Guðjónsson, yfirkokkur Tokyo sushi, rak taílenska öldungardeildarþingmanninn Porntip Rojanasunan út af veitingastað keðjunnar á Nýbýlavegi í gær. Í myndbandi af gjörningum, sem hann deildi á Facebook, má heyra hann segja að Rojanasunan hafi skaðað Taíland.

Ari Alexander sýndi frá því þegar hann rak Rojanasunan út af staðnum í beinni útsendingu á Facebook-síðu sinni. Myndskeiðið er ekki aðgengilegt en fjöldi taílenskra miðla hefur greint frá innihaldi þess. 

Porntip Rojanasunan fékk ekki að borða sushi í gær.Skjáskot/PBS

Í myndskeiðinu heyrist Ari Alexander ekki gefa aðrar útskýringar á brottrekstri Rojanasunan en að hún hefði valdið Taílandi miklum skaða. Ari Alexander er af taílenskum uppruna.

„Þú ert ekki velkomin hér, farðu út af veitingastaðnum mínum,“ sagði Ari Alexander á ensku. 

Myndskeið af atvikinu má sjá hér að neðan. 

Talið tengjast pólitískum ágreiningi

Í taílenska miðlinum PBS segir að talið sé að Ari Alexander hafi ekki viljað hafa Rojanasunan inni á staðnum vegna andstöðu hennar við stjórnmálaflokk sem vill minnka áhrif konungsfjölskyldunnar í Taílandi. 

„No comment," sagði Ari Alexander þegar Vísir náði tali af honum í dag.

Rojanasunan er hér á landi í fríi ásamt nokkuð stórum hópi fólks. Ari Alexander gerði ekki athugasemdir við veru annarra í hópnum á staðnum en hennar.

Hún deildi mynd af sér í nótt á samfélagsmiðlinum Instagram og sagði að hún hefði loksins náð markmiði sínu að sjá norðurljósin.

Frægasti réttarmeinafræðingur landsins

Porntip Rojanasunan er vel þekkt í stjórnmálum Taílands. Hún er menntaður læknir og réttarmeinafræðingur. Hún steig fram í sviðsljósið árið 1998 og varð fljótlega þekktasti réttarmeinafræðingur landsins. Hún var frumkvöðull í notkun erfðaefnisrannsókna í landinu og athyglisverðar hárgreiðslur hennar ýttu undir frægðina.

Rojanasunan stýrði réttarmeinastofnun Taílands um tíma og var kjörin á þing árið 2019.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×